Undirbjuggu árásir víða í Marokkó

AFP

Lögreglan í Marokkó hefur handtekið fjóra menn sem taldir eru tengjast vígasamtökunum Ríki íslams. Talið er að þeir hafi verið að undirbúa hryðjuverkaárásir víða um landið. 

Samkvæmt tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu var einn þeirra handtekinn í borginni Meknes í Norður-Marokkó í gær. Hann hafði aflað sér þekkingar á notkun sprengjubúnaðar og var að undirbúa sprengju. Í síðustu viku voru þrír meintir hryðjuverkamenn handteknir í Tangiers. Þeir voru að undirbúa mjög viðamiklar árásir. 

Yfirmaður hryðjuverkahópsins á að hafa verið í sambandi við liðsmann Ríkis íslams frá Marokkó og ætlaði að fara til Íraks eða Sýrlands og berjast fyrir samtökin. 

Stjórnvöld í Marokkó segja að þau hafi flett ofan af yfir 150 hryðjuverkahópum í landinu frá árinu 2002. Þar á meðal tugi hópa á undanförnum þremur árum sem eru í tengslum við hryðjuverkasamtök í Írak og Sýrlandi. Að minnsta kosti 1.200 Marokkóar fóru  til Íraks og Sýrlands að berjast með hryðjuverkasamtökum frá miðju ári 2014 til ársloka 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert