Áhöfn flugvélar slökkti í Samsung-síma

Vél flugfélagsins. Mynd úr safni.
Vél flugfélagsins. Mynd úr safni.

Samsung-sími vakti skelfingu um borð í flugvél indverska flugfélagsins Indigo í morgun, samkvæmt yfirlýsingu frá flugfélaginu, eftir að reyk tók að leggja frá honum. Skammt er síðan snjallsímaframleiðandinn afturkallaði 2,5 milljónir eintaka af nýjustu gerð símanna, eftir að eldur hafði kviknað í rafhlöðum margra þeirra á meðan hleðslu stóð.

Flugfélagið segir lítinn reyk hafa lagt frá Samsung-síma af gerðinni Note 2, sem var í handfarangri farþega flugvélar á leið frá Singapúr til indversku borgarinnar Chennai.

„Indigo staðfestir að nokkrir farþegar tóku eftir reykjarlykt í farþegarýminu og létu flugþjóna vita um leið,“ segir í yfirlýsingunni.

Segir þá að áhöfnin hafi sprautað úr slökkvitæki á símann áður en hann var færður á kaf í vatn. Vélin hélt svo áfram leið sinni og lenti samkvæmt áætlun á áfangastað.

Sjá frétt mbl.is: Tæpum helmingi Galaxy Note 7 skilað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert