„Enginn rasismi fyrir tíð Obama“

Kathy Miller dró ekkert undan þegar hún ræddi við The …
Kathy Miller dró ekkert undan þegar hún ræddi við The Guardian á dögunum. Skjáskot/The Guardian

Kosningastjóri Donalds Trump í mikilvægri sýslu í Ohio sagði af sér í kjölfar viðtals þar sem konan sagði að enginn rasismi hefði verið í Bandaríkjunum áður en Barack Obama var kjörinn forseti. Ennfremur sagði hún að blökkumenn gætu sjálfum sér um kennt hafi þeir ekki náð árangri í lífinu.

Viðtal The Guardian við Kathy Miller hefur vakið mikla athygli. Hún hefur skipulagt kosningabaráttu frambjóðanda Repúblikanaflokksins í Mahoning-sýslu í Ohio. Ummælin féllu í grýtta jörð enda hafa kynþáttamál og fordómar verið í brennidepli vestanhafs undanfarið.

„Ég held ekki að það hafi verið neinn rasismi þangað til Obama var kjörinn. Við áttum aldrei í vandamálum af þessu tagi. Núna með þetta fólk með byssur sem skjóta hverfin í sundur og eru ekki ábyrgir borgarar er það mikil breyting og ég held að það sé hugmyndafræði sem Obama hefur fest í sessi í Bandaríkjunum,“ sagði Miller við The Guardian.

Hún lét hins vegar ekki þar við sitja.

„Ef þú ert svartur og þér hefur ekki vegnað vel undanfarin fimmtíu ár þá er það þér sjálfum að kenna. Þú hefur haft öll tækifæri til þess, þau hafa verið gefin þér. Þú hefur haft sömu skólana og allir aðrir gengu í. Þú hafði kost á að fara í háskóla sem hvítir krakkar höfðu ekki. Þú hafði öll tækifærin og þú nýttir þér þau ekki. Það er sannarlega ekki okkur að kenna,“ sagði hún.

Jafnframt sagði hún hreyfinguna Svört líf skipta máli sem hafa beitt sér gegn ofbeldi lögreglunnar gegn blökkumönnum „heimskulega tímaeyðslu“. Svartir Bandaríkjamenn þyrftu að „axla ábyrgð á hvernig þeir lifa“.

Formaður Repúblikanaflokksins í Mahoning segist umsvifalaust hafa sett sig í samband við kosningastjórn Trump í Ohio og krafðist þess að Miller yrði sett af vegna „geðveikislegra ummæla“ hennar.

Miller hefur nú beðist afsökunar á ummælunum sem hún sagði óviðeigandi. Hún hefur jafnframt lýst því yfir að hún komi ekki til með að taka frekari þátt í kosningabaráttu Trump í sýslunni.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert