Létust með nokkurra daga millibili

Katie og Dalton Prager kynntust í gegnum Facebook. Þau voru …
Katie og Dalton Prager kynntust í gegnum Facebook. Þau voru með sama lungnasjúkdóminn.

Kornung hjón sem þjáðust bæði af sama lungnasjúkdómnum, létust með aðeins nokkurra daga millibili.

Katie og Dalton Prager vöktu heimsathygli í fyrra er CNN fjallaði um þau og baráttu Katie að fá lungnaígræðslu. Henni varð að ósk sinni en vegna flókinna fylgikvilla aðgerðinnar lést hún á heimili sínu í Flemingsburg í Kentucky í gær. Eiginmaðurinn lést fimm dögum áður. Þau voru 25 og 26 ára gömul.

Móðir hennar segir að Katie hafi óskað þess heitast að fá að deyja heima hjá sér, umkringd sínum nánustu, fjarri sjúkrahússtofunni sem hún þekkti of vel. „Næstu dagar verða ekki auðveldir en ég finn frið með því að minna mig á að hún naut lífsins, hún virkilega naut lífsins,“ skrifar móðirin, Debra Donovan á Facebook.

Katie og Dalton kynntust í gegnum Facebook árið 2009 er þau voru bæði átján ára. Katie hafði séð færslu frá móður hans þar sem birt var mynd af honum á sjúkrahúsi. „Ef þú þarft einhvern tímann á vini að halda getur þú leitað til mín,“ skrifaði Katie við myndina.

„Afsakaðu, en þekki ég þig?“ skrifaði hann til baka.

„Nei, þú gerir það ekki,“ svaraði Katie og kynnti sig svo ítarlegar. Hún sagði honum að gefast ekki upp, hún þekkti þetta allt saman af eigin raun.

Ekki varð aftur snúið og parinu varð vel til vina. Þeim langaði að hittast en læknir Katie réð henni frá því þar sem Dalton væri með sýkingu sem gæti verið henni hættuleg.

Katie lét varnaðarorð læknisins sem vind um eyru þjóta og hitti Dalton í fyrsta sinn í ágúst árið 2009.

Katie sagði í viðtali við CNN í fyrra að hún myndi nákvæmlega eftir því þegar hún sá hann fyrst. Hann verið mjög myndarlegur og svalur.

„Hjarta mitt hamaðist, ég gekk beint upp að honum, faðmaði hann og kyssti hann á munninn, án þess svo mikið sem að segja halló!“ rifjaði hún upp.

En Katie smitaðist af sýkingunni sem læknirinn hafði varað hana við. Þau giftu sig tveimur árum eftir að þau kynntust og þá var heilsa þeirra nokkuð góð og hélst svo fyrstu árin á eftir.

Ungu  hjónin nutu lífsins til fulls. „Þetta var eins og ævintýri,“ sagði Katie við CNN nokkrum dögum áður en hún lést.

En fyrir tveimur árum blossaði sýkingin upp í lungum þeirra og voru þau bæði flutt á sjúkrahús þar sem þau biðu eftir lungnaígræðslu. Dalton fékk ný lungu í lok árs 2014. Katie fékk svo ný lungu í júlí í fyrra.

En heilsufarsvandamál þeirra voru langt frá því að vera að baki. Dalton fékk eitlaæxli en náði bata. Fyrir skömmu var hann lagður inn á sjúkrahús með lungnabólgu og mikla sýkingu.

Ígræðsla Katie bætti aldrei líf hennar. Hún var ítrekað lögð inn á sjúkrahús og fyrr í þessu mánuði var henni tilkynnt að ekki væri meira hægt að gera, hún myndi deyja. Í kjölfarið var hún flutt heim til sín og fékk líknandi meðferð. Dalton var þá á sjúkrahúsi í Missouri en til stóð að flytja hann á sjúkrahús nær heimili sínu. Hann náði þó aldrei nógu góðri heilsu til þess og lést síðastliðinn laugardag.

Katie segist ekki sjá eftir neinu og alls ekki því að hafa hitt hann í eigin persónu. Þeirra samband hafi gefið sér mikið. „Ég myndi frekar vilja njóta fimm ára með ástinni minni, fullkomnlega hamingjusöm, en tuttugu árum án slíks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert