Mótmælt þrátt fyrir útgöngubann

AFP

Hundruð mótmælenda virtu útgöngubann að vettugi í borginni Charlotte í Norður-Karólínu í nótt og héldu mótmælum áfram eftir miðnætti. Gríðarleg reiði er meðal borgarbúa vegna dráps lögreglunnar á svörtum manni á þriðjudag. Neyðarástandi var lýst yfir í borginni á miðvikudag og þjóðvarðlið sent þangað.

Fréttamaður AFP segir að nokkur hundruð mótmælendur séu á götum úti í miðborg Charlotte en þetta er þriðja nóttin í röð sem mótmælt er þar. Mikill fjöldi lögreglumanna fylgist með.

Keith Lamont Scott, 43 ára. var skotinn til bana við fjölbýlishús í borginni og bættist þar í stóran hóp svarta íbúa Bandaríkjanna sem eru skotnir til bana af lögreglu.

AFP

Lögregla beitti táragasi og gúmmíkúlum á mótmælendur í gærkvöldi þegar mómælendur höfðu lokað aðalleiðinni í gegnum borgina. Fyrr um daginn höfðu nokkur hundruð mótmælendur lagst á götuna og lokað einni akrein stórrar götu. Mörgum bílstjórum brá mjög, sneru við og keyrðu á móti umferð.

Samkvæmt frétt New York Times þá horfðu ættingjar Scott á myndskeiðið af atburðarrásinni sem varð til þess að Scott var skotinn til bana af svartri lögreglu. Það var lögreglan sem bauð þeim að horfa á myndskeiðið. Fjölskyldan segir að birta eigi myndskeiðið opinberlega, það sé þeirra upplifun að hann hafi ekki sýnt vott af árásargirni í myndskeiðinu. En lögreglustjórinn, sem skipulagði fundinn með fjölskyldu, heldur fast við þá ákvörðun sína að það verði ekki sýnt opinberlega.

Eiginkona Scott og aðrir ættingjar horfðu á myndskeiðið sem sýnir drápið frá tveimur sjónvarhornum. Annað er tekið upp í mælaborði lögreglubílsins og hitt af myndavél sem lögreglumaðurinn er með á sér. 

Lögmaður fjölskyldunnar segir að þetta hafi verið skelfilega erfitt og að fjölskyldan sitji eftir með fleiri spurningar en svör. Lögreglan segir að Scott hafi verið skotinn eftir að hafa komið vopnaður út úr bifreið sinni. 

Að sögn lögmannsins kemur Scott rólega út úr bílnum eftir að hafa verið beðinn um það. Lögreglan skipi honum fyrir í nokkur skipti en Scott haldi ró sinni allan tímann. Hann er síðan skotinn þegar hann bakkar hægt með hendur niður við síðu.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert