Mun aldrei losna úr fangelsi

Chris Halliwell mun aldrei losna úr fangelsi.
Chris Halliwell mun aldrei losna úr fangelsi.

Morðingi hinnar ungu Becky Godden er „útsmoginn“ og „undirförull“ að mati dómarans sem dæmdi hann í dag í lífstíðarfangelsi fyrir morðið.

Refsing morðingjans Christofers Halliwell var ákveðin af dómara í Bristol á Bretlandseyjum. Hann mun aldrei verða frjáls ferða sinna aftur þar sem hann afplánar nú þegar dóm fyrir morð á annarri stúlku. Þann dóm hlaut hann fyrir fjórum árum. Talið er mögulegt að Halliwell hafi myrt fleiri konur og þrýsta lögregluyfirvöld nú á hann að segja frá svo upplýsa megi um málin. 

Halliwell er 52 ára leigubílstjóri. 

Fyrra morðið sem hann var sakfelldur fyrir átti sér stað í Swindon árið 2011. Hann tók Sian O’Callaghan, 22 ára konu, upp í leigubíl sinn er hún var á heimleið eftir að hafa eytt kvöldinu á næturklúbbi. Hann stakk hana í höfuðið og kyrkti hana. Líkið fannst fáklætt í vegkanti í Oxford-skíri.

Halliwell var dæmdur sekur um morðið á Becky Godden fyrir tveimur vikum en það framdi hann árið 2003. Godden var vændiskona og Halliwell kynntist henni er hann ók leigubíl sínum í Swindon. Í janúar árið 2003 hafði hann mök við hana, kyrkti hana og gróf lík hennar á akri. 

Lýst var eftir Godden á sínum tíma en það var ekki fyrr en Halliwell var handtekinn vegna hvarfs O’Callaghan sem grunur vaknaði að hann bæri einnig ábyrgð á dauða Godden. Halliwell sagði lögreglunni frá því hvar lík O’Callaghan væri og einnig hvar hann hefði grafið lík Godden átta árum áður.

Lögreglan telur mjög líklegt að Halliwell beri ábyrgð á fleiri morðum. Hún segir að átta ár séu milli morðanna tveggja. Skoða þurfi hvað Halliwell hafðist við á þeim árum. 

Í frétt Guardian um málið segir að á níunda áratugnum, er Halliwell var í fangelsi vegna annarra brota, spurði hann klefafélaga sinn hversu margar konur þyrfti að myrða til þess að vera flokkaður sem raðmorðingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert