Trúðabúningar sagðir skapa hættuástand

Lögregla fann Johnathan Martin að læðast um milli trjágróðurs við …
Lögregla fann Johnathan Martin að læðast um milli trjágróðurs við íbúðahverfi. Ljósmynd/Lögreglan í Middlesboro

Lögreglan í Kentucky handtók í dag mann í trúðabúningi, en undanfarið hafa fréttir borist af trúðum að læðast um skógarlendi í að minnsta kosti sex ríkjum Bandaríkjanna.

Hinn tvítugi Jonathan Martin var ákærður í Middlesboro fyrir óspektir og fyrir að bera grímu á almannafæri. Lögregla fann hann um eittleytið aðfaranótt föstudags með grímu og í „fullum trúðabúningi“ að læðast um milli trjágróðurs við íbúðahverfi.

Fregnir af trúðum sem reyna að tæla börn inn í skóglendi hafa vakið óhug undanfarið, að sögn fréttavefjar BBC, sem segir lögregluyfirvöld hafa varað fólk við því að klæðast trúðsbúningum þar sem slíkt kunni að leiða til ákæru.

„Það getur skapað hættuástand fyrir mann sjálfan og aðra að klæðast trúðsbúningi við akstur, á göngu eða standandi á almannafæri,“ segir í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum í Barbourville í Kentucky-ríki.

„Þó að það brjóti ekki í bága við lög að klæðast búningi, þá er ólöglegt að klæðast búningi á almannafæri og valda þannig ótta.“

Fregnir hafa borist af trúðafundum í Norður-Karólínuríki, Suður-Karólínuríki, Alabama, Georgíu og Kentucky á undanförnum vikum. En fregnir af óhugnanlegum trúðafundum á hafa einnig leitt til þess að fjöldinn allur af fölskum tilkynningum hefur bæði birst á samfélagsmiðlum og verið tilkynntur lögreglu.

Þannig greindi lögreglan í Annapolis í Maryland nýlega frá því að fregnir af því að trúðar hefðu hrætt nemendur á leið í skóla væru ekki sannar.

24 ára gamall karlmaður var sömuleiðis kærður fyrir að bera ljúgvitni í Winston-Salem í Norður-Karólínuríki, eftir að hann tilkynnti lögreglu að trúður hefði bankað á gluggann hjá sér.

Loks var 11 ára gömul stúlka handtekinn í Aþenu í Georgíu fyrir að koma með hníf í skólann, en fregnir á samfélagsmiðlum að trúðar væru að ráðast á börn, ollu stúlkunni miklum ótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert