Viðræður í þrot og friður draumsýn ein

Maður heldur á líkamsleifum ungabarns sem varð undir rústum í …
Maður heldur á líkamsleifum ungabarns sem varð undir rústum í loftárásum í al-Muasalat, í norðurhluta Aleppo. AFP

Ráðamönnum í Bandaríkjunum og Rússlandi tókst ekki að ná saman í dag um endurnýjun samkomulags um vopnahlé í Sýrlandi. Samskipti ríkjanna hafa súrnað verulega í kjölfar árásar á bílalest með neyðargögn nærri Aleppo, en Bandaríkjamenn og Bretar hafa sakað Rússa um að hafa staðið að árásinni, viljandi eða óviljandi.

Ráðamenn sem sóttu allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í vikunni voru á einu máli um mikilvægi þess að viðræður Bandaríkjamanna og Rússa héldu áfram en þegar John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, undirbjuggu heimför var ljóst að langt væri í land.

Lavrov sagði glórulaust að freista þess að koma vopnahléi þar sem Banaríkjamönnum hefði mistekist að aðgreina hófsama uppreisnarhópa frá hryðjuverkamönnum.

„Við erum öll fylgjandi vopnahléinu en án aðskilnaðar Nusra, það er að segja andstöðu Nusra, þá er vopnahléið merkingarlaust,“ sagði hann og vísaði þar til hryðjuverkasamtakanna Al-Nusra Front.

Sýrlenski stjórnarherinn batt enda á vopnahléið á mánudag og lét til skarar skríða í Aleppo, þar sem uppreisnarmenn berjast við hlið liðsmanna Al-Nusra. Stjórnarherinn nýtur stuðnings Rússa en uppreisnarmenn Bandaríkjanna.

Al-Nusra Front, sem tóku upp nafnið Jabhat Fateh al-Sham í júlí þegar samtökin skildu að skiptum við Al-Kaída, eiga ekki aðkomu að vopnahléinu.

„Hvers kyns vopnahlé, sjö daga eða þriggja daga, væri glórulaust,“ sagði Lavrov. Þá hélt hann því fram að hópar tengdir Al-Nusra hefðu framkvæmt 350 árásir á meðan vopnahléinu stóð.

Lavarov gerði úr því skóna við blaðamenn að Bandaríkjamenn vildu …
Lavarov gerði úr því skóna við blaðamenn að Bandaríkjamenn vildu hlífa hryðjuverkasamtökunum Al-Nusra til að notfæra sér afl þeirra gegn Sýrlandsher síðar meir. AFP

Utanríkisráðherrann sagði einnig að uppreisnarhópar hefðu neitað að hörfa frá Castello-veginum sem liggur inn í Aleppo. Hann kvartaði undan vangetu stórnvalda í Washington varðandi loforð sín um að sannfæra stjórnarandstöðuna um að virða vopnahléið og aðskilja sig frá Al-Nusra.

„Við höfum skilning á því að þetta er erfitt verkefni en allt er erfitt í Sýrlandi,“ sagði hann. „Við viljum sjá merki þess að bandalagið hafi áhrif á þá sem eru á jörðu niðri. Mér finnst það ekki til mikils ætlast.“

Lavrov ýjaði að því við blaðamenn að það kynni að vera að Bandaríkjamenn væru að halda hlífiskyldi yfir Al-Nusra vegna aðkomu samtakanna að baráttunni gegn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

„Ég vil hafa rangt fyrir mér,“ sagði hann. „En það virðist sem sumir vilji kannski hlífa Nusra og halda þeim þar til seinna, þegar hið alræmda „Plan B“ verður mögulega tilkynnt.“

Frakkar búnir að fá sig fullsadda

Fyrr á þessu ári sagði Kerry bandarískum þingmönnum að ef samningaviðræður við Rússa færu út um þúfur myndi hann leggja fram „Plan B“, sem menn hafa giskað á að feli í sér frekara hernaðarinngrip af hálfu Bandaríkjanna.

Kerry hefur líkt og Lavrov verið ákveðinn í máli í vikunni og sagði meðal annars á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að kollegi hans frá Rússlandi talaði frá „hliðstæðum heimi“.

En í dag, eftir síðustu tilraun ráðherrana til að ná saman, reyndi hann að slá á jákvæðan tón og sagði að mál gætu enn þokast. „Við höfum skipst á hugmyndum. Ég held að við höfum náð örlitlum árangri. Við erum að leggja mat á nokkrar gagnkvæmar hugmyndir á uppbyggilegan hátt, punktur.“

John Kerry og Sergei Lavrov hafa skipst á skotum í …
John Kerry og Sergei Lavrov hafa skipst á skotum í vikunni, á sama tíma og þeir hafa freistað þess að ná saman um endurnýjun vopnahlésins í Sýrlandi. AFP

Það er hins vegar ekkert launungarmál að afstaða Bandaríkjanna hefur harnað og sagði Kerry á fimmtudag að stjórnvöld í Mosvku yrðu að fá Assad til að kyrrsetja flugher sinn ef takast ætti að endurnýja vopnahléið.

„Leyfið mér að tala skýrt: Bandaríkin biðjast engan veginn afsökunar á því að ganga lengra til að lina þjáningar sýrlensku þjóðarinnar,“ sagði hann. „En við getum ekki verið þeir einu sem halda hurðinni opinni. Rússland og [Sýrlandsstjórn] verða að koma að málum, annars á þetta enga von.“

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, þótti ekki mikil til viðleitni kollaga sinna koma og gagnrýndi tvíhliða viðræður Bandaríkjamanna og Rússa.

„Hin bandaríska-rússneska samvinna er komin á endastöð. Þessi aðferð er ekki að virka. Viðræður munu halda áfram en þær virðast óendanlegar,“ sagði ráðherrann. „Bandaríkin bera sérstaka ábyrgð, sem hefur sögulega vídd. Við biðjum þau um að axla hana, það er kominn tími fyrir sameiginlega nálgun.“

Á meðan þessu fór fram rigndi sprengjum yfir Aleppo. Samkvæmt Syrian Observatory for Human Rights létu 45 almennir borgarar lífið í loftárásum Rússa og stjórnarhersins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert