Yfir hundrað látnir eftir að bát hvolfdi

Egyptar standa á ströndinni og bíða fregna af leitinni á …
Egyptar standa á ströndinni og bíða fregna af leitinni á hafi úti. AFP

Fjöldi þeirra sem létust að sögn yfirvalda þegar bátur sökk undan strönd Egyptalands er nú meiri en hundrað. Enn er unnið að því að draga lík fólks á land úr Miðjarðarhafinu.

Eftirlifendur segja að allt að 450 flóttamenn hafi verið um borð í fiskibátnum, sem var á leið til Ítalíu frá Egyptalandi þegar honum hvolfdi skammt frá hafnarborginni Rosetta á miðvikudag.

Fréttir mbl.is:
Bát með flóttamönnum hvolfdi
Lokuðu sig inni í geymslu í örvæntingu

Egypskir lögreglumenn og sjúkraliðar standa yfir líki manns sem lést …
Egypskir lögreglumenn og sjúkraliðar standa yfir líki manns sem lést í stórslysinu undan ströndum landsins. AFP

Fjórir handteknir í Egyptalandi

Talsmaður heilbrigðisráðuneytis Egyptalands segir 53 lík hafa fundist til viðbótar við þau sem áður höfðu verið borin á land. Að minnsta kosti 108 eru því látnir eftir þetta stórslys.

Egypski herinn segist þá hafa bjargað 163 úr hafinu, og standa björgunaraðgerðir enn yfir. Segja björgunarmenn að leitinni sé beint að vörulest bátsins, þar sem vitni segja að um hundrað manns hafi haldið sig þegar bátnum hvolfdi.

Fjórir hafa verið handteknir grunaðir um að hafa skipulagt bátsferðina, þá síðustu af mörgum sem endar með þessum hrikalega hætti á árinu, sem stefnir í að vera það mannskæðasta í nútímasögu sjóferða á Miðjarðarhafi.

Nokkrir mánuðir eru síðan Evrópska landamærastofnunin Frontex varaði við því að sífellt fleiri flóttamenn á leið til Evrópu legðu af stað í hættuförina yfir hafið frá Egyptalandi.

Skipuleggjendur bátsferðanna notast oft við báta sem eru varla haffærir og ofhlaða þá örvæntingarfullu flóttafólki, til að fá sem mest verð fyrir ferðina.

Sjúkraliðar taka á brott lík flóttamanns sem fannst á Miðjarðarhafi.
Sjúkraliðar taka á brott lík flóttamanns sem fannst á Miðjarðarhafi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert