15.000 mótmæla í Helsinki

Um 15.000 manns söfnuðust saman í Helsinki til að mótmæla …
Um 15.000 manns söfnuðust saman í Helsinki til að mótmæla kynþáttahatri. AFP

Um það bil 15.000 manns tóku þátt í mótmælagöngu í miðborg Helsinki í dag. Efnt var til göngunnar til að mótmæla vaxandi kynþáttahatri og auknum vinsældum hægri öfgaflokka að sögn finnsku lögreglunnar, sem sagði kveikjuna vera andlát manns sem talið er hafa orðið fyrir árás leiðtoga nýnasistahreyfingar.

Í Twitter-skilaboðum frá lögreglunni segir að um 15.000 manns hafi tekið þátt í göngunni í Helsinki. Þá voru fjölmennar mótmælagöngur einnig haldnar víðs vegar um landið og var Juha Sipila, forsætisráðherra Finna, meðal þátttakenda í mótmælagöngu í bænum Kuopio.

„Fólk er að safnast saman af réttu tilefni, af því að meirihluti Finna hefur miklar áhyggjur af ofbeldi  tengdu öfgasamtökum,“ sagði Sipila í samtali við finnska ríkisútvarpið YLE.

Efnt var til nokkurra minni mótmælagangna í Helsinki  til að mótmæla göngunni gegn kynþáttahatri, en að sögn lögreglu gekk vel að halda hópunum aðskildum.

Mótmælagangan í Helsinki var skipulögð á vegum Facebook-hóps sem gaf göngunni nafnið „Peli Poikki!“ eða „Stöðvið þetta núna!“ og var hún farin í kjölfar morðsins á Jimi Karttunen, 28 ára gömlum manni, sem mikið hefur verið fjallað um í finnskum fjölmiðlum.

Karttunen var á leið fram hjá mótmælagöngu gegn innflytjendum núna fyrr í september, þegar hann ákvað að stoppa og hrækja í átt að mótmælendunum. Jesse Torniainen, sem er vel þekktur leiðtogi finnskra nýnasista, brást við með því að sparka í brjóstkassa Karttunen með þeim afleiðingum að höfuð hans skall í jörðina.

Karttunen dó viku síðar úr heilablæðingu og Torniainen er í varðhaldi lögreglu grunaður um alvarlega líkamsárás og manndráp af gáleysi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert