Nauðgara skipað að gefa fórnarlambi sínu verk um virðingu kvenna

Meðal verka á listanum voru skáldsögur Virginiu Woolf.
Meðal verka á listanum voru skáldsögur Virginiu Woolf.

Ítalskur dómstóll hefur skipað viðskiptavini vændiskonu á barnsaldri að kaupa handa henni 30 bækur þar sem umfjöllunarefnið er virðing og reisn kvenna.

Til viðbótar við tveggja ára fangelsisdóm felur refsing mannsins það í sér að gefa hinni 15 ára gömlu stúlku skáldsögur eftir Virginiu Woolf, ljóðabækur Emily Dickinson og Dagbók Önnu Frank. Þá á hann einnig að kaupa handa henni tvær kvikmyndir með feminísku þema.

Dómarinn Paola Di Nicola kvað upp úrskurðinn í kjölfar rannsóknar á vændishring í Róm, sem misnotaði tvær stúlkur í Parioli-úthverfinu og gerði þær út.

Stúlkurnar voru 14 og 15 ára og voru tældar með peningum, sem þær notuðu til að kaupa ný föt og snjallsíma.

Höfuðpaurinn var dæmdur í níu ára fangelsi eftir réttarhöld 2014.

„Úrskurðurinn bendir til þess að dómarinn var fylgjandi lausn sem myndi hjálpa hinni ungu stúlku að skilja að hinn raunverulegi skaði sem hún varð fyrir var skaðinn á virðingu hennar sem konu,“ sagði í miðlinum Corriere della Sera.

Meðal verka á listanum var bók eftir Adriönu Cavarero, prófessor í heimspeki við háksólann í Verona, sem sagði að það hefði verið betra ef dómarinn hefði lesið verkin fyrir hinn dæmda mann.

„Unglingsárin eru ekki tíminn fyrir íhugun, það sem hann gerði var mun verra; fullorðinn maður sem vitandi vits greiddi fyrir kynlíf með ólögráða einstakling.“

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert