New York Times styður Clinton

Ritstjórn New York Times vísar til gáfna, reynslu og hugrekkis …
Ritstjórn New York Times vísar til gáfna, reynslu og hugrekkis Hillary Clinton sem rökstuðnings fyrir stuðningi við hana. AFP

Bandaríska stórblaðið New York Times hefur lýst yfir formlegum stuðningi við Hillary Clinton í forsetakosningunum vestanhafs. Í leiðara ritstjórnar blaðsins í dag er fullyrt að andstæðingur hennar, Donald Trump, sé „versti frambjóðandi sem meiriháttar flokkur hefur boðið fram í samtímasögu Bandaríkjanna“.

Blaðið gagnrýnir Trump harðlega fyrir að láta ekkert uppi um sjálfan sig eða stefnumál sín þó að hann lofi kjósendum öllu milli himins og jarðar. Bandaríkjamenn ættu hins vegar ekki aðeins að styðja Clinton vegna þess að hún sé valkosturinn við Trump. Þeir ættu frekar að líta til þeirra áskorana sem Bandaríkjamenn standi frammi fyrir á næstu misserum og hæfni Clinton til að takast á við þær.

Stuðningsyfirlýsingin byggist á virðingu fyrir gáfum, reynslu og hugrekki frambjóðanda Demókrataflokksins.

Viðurkennir blaðið að Clinton hafi sína ókosti og hún hafi skipt um skoðun í gegnum tíðina sem gæti látið hana virðast tækifærasinnuð. Blaðið vill hins vegar sérstaklega reyna að fá repúblikana sem geta ekki hugsað sér að kjósa demókrata eða fólk sem hugnast ekki Clinton til að skipta um skoðun.

Heimurinn sé fullur af stríð, hryðjuverkum og fordómafullum hreyfingum. Heima fyrir sé bandaríska miðstéttin ævareið stjórnmálamönnum sem hún sakar um að gera ekkert til að taka á efnahagsþrengingum, stríði, samkeppni við útlönd og tæknibreytingar.

„Á fjörutíu árum í opinberri þjónustu hefur Hillary Clinton kynnt sér þessi mál og metið úrræði gegn þessum vandamálum,“ segir í leiðara New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert