Áratugi í hjólastól vegna rangrar greiningar

Borrego var bundinn við hjólastól í fjóra áratugi.
Borrego var bundinn við hjólastól í fjóra áratugi. ljósmynd/norden.org

Portúgalskur maður eyddi 43 árum í hjólastól vegna þess að hann fékk ranga sjúkdómsgreiningu hjá læknum. Eftir lyfjagjöf gat maðurinn gengið á nýjan leik aðeins ári eftir að hann fékk loks rétta greiningu, þá á sextugsaldri. Hann segist ekki bera kala til sjúkrahússins þar sem hann fékk ranga greiningu.

Sagt er frá máli Rufino Borrego í portúgalska dagblaðinu Jornal de Noticias. Hann var aðeins þrettán ára gamall þegar hann var greindur með ólæknandi vöðvavisnun á sjúkrahúsi í Lissabon. Í kjölfarið var hann bundinn við hjólastól í fjóra áratugi.

Árið 2010 komst taugasérfræðingur hins vegar að því að Borrego þjáðist í raun af öðrum sjúkdómi sem veikir vöðva og kallast vöðvaslen. Sjúkdómurinn er sjaldgæfur en hann má meðhöndla með því að taka astmalyf. Aðeins ári eftir að hann fékk rétta greiningu var Borrego búinn að læra að ganga á ný og gat gengið sjálfur á uppáhaldskaffihúsið sitt.

„Við héldum að þetta væri kraftaverk,“ segir Manuel Melao, eigandi kaffihúss í Alandroal í suðausturhluta Portúgal þangað sem Borrego hefur vanið komur sínar í gegnum árin.

Borrego er nú 61 árs gamall og getur lifað eðlilegu lífi. Fer hann aðeins tvisvar til sjúkraþjálfara á ári. Hann er ekki reiður þeim sem greindu hann rangt á sínum tíma enda gerir hann sér grein fyrir að vöðvaslen hafi verið nánast óþekkt á 7. áratugi síðustu aldar.

„Ég vil bara nýta líf mitt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert