Harmar rannsóknir gegn hermönnum

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur stigið fram og gagnrýnt að breskir hermenn séu til rannsóknar vegna meintra brota í Írak og Afganistan.

Í viðtali við Sunday Telegraph sagðist Blair harma að hermennirnir hefðu mátt sæta þessari meðferð og sagði að rannsóknirnar hefðu aldrei átt að eiga sér stað.

The Iraq Historic Allegations Team (Ihat), sem rannsakar ásakanir um morð og misnotkun af hálfu breskra hermanna í Írak, hefur verið harðlega gagnrýnt vegna meðferðar sinnar á málum.

Menn hafa haft áhyggjur af tilhæfulausum ásökunum og því hversu langan tíma athuganirnar hafa tekið.

„Ég tel að þetta ferli hefði aldrei átt að verða til,“ sagði Blair. „Mér þykir afar leitt að þetta hafi verið lagt á hermennina okkar og fjölskyldur þeirra.“

Hann sagði breskar hersveitir hafa skilað framúrskarandi störfum í Írak og Afganistan og sagði rannsóknir af þessu tagi einfaldlega erfiða starf hermannsins.

Fyrrverandi hermenn segjast hafa verið hundeltir gegnum réttarkerfið vegna ósannra ásakana og vaxandi fjöldi kallar eftir því að Ihat verði leyst upp.

Forsætisráðherrann Theresa May sagði á fimmtudag að allt yrði gert til að koma í veg fyrir að dómskerfið væri misnotað með þessum hætti og til að vernda hermenn gegn tilhæfulausum ásökunum.

Michael Fallon varnarmálaráðherra hefur heitið hermönnum lagalegum stuðningi en segir nauðsynlegt að Ihat haldi áfram störfum til að tryggja að Bretland endi ekki fyrir stríðsglæpadómstólnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert