Svisslendingar heimila aukið eftirlit

Andstæðingar frumvarpsins söfnuðu undirskriftum til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu, sem …
Andstæðingar frumvarpsins söfnuðu undirskriftum til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fram fór í dag. AFP

Allt bendir til þess að Svisslendingar muni samþykkja að veita yfirvöldum auknar eftirlitsheimildir í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fer í dag. Eins og stendur hafa löggæsluyfirvöld ekki undir nokkrum kringumstæðum heimildir til að hlera síma eða fylgjast með tölvupóstsamskiptum.

Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að löggjöfin sem um ræðir njóti stuðnings 66% kjósenda.

Varnarmálaráðherrann Guy Parmelin hefur ítrekað að stjórnvöld stefni ekki að því að koma á magnsöfnun upplýsinga á borð við þá sem Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hefur stundað.

Hann segir að með lögunum séu Svisslendingar „að yfirgefa kjallarann og koma upp á jarðhæð“ í samanburði við alþjóðleg viðmið. Hann sagði að menn ættu að forðast að bera Sviss saman við Bandaríkin eða önnur stórveldi sem hafa teygt sig langt umfram það sem eðlilegt getur talist hvað varðar persónufrelsið.

Samkvæmt nýju lögunum munu yfirvöld geta farið fram á eftirlitsheimildir fyrir dómstólum. Stjórnvöld gera ráð fyrir að reyna muni á lögin fáum sinnum á ári og aðeins til að fylgjast með afar hættulegum einstaklingum, þá ekki síst þeim sem taldir eru tengjast hryðjuverkum.

Lögin voru samþykkt á þinginu í fyrra en andstæðingar þeirra náðu að safna nógu mörgum undirskriftum til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

Skuggi eftirlitsógnarinnar vofir enn yfir Sviss en árið 1989 kom það upp á yfirborðið að öryggisyfirvöld hefðu haldið skrár yfir 900.000 einstaklinga, þar sem tengsl viðkomandi við stjórnmálahreyfingar og verkalýðsfélög voru útlistuð.

Uppljóstrunin vakti mikla reiði og áköll eftir takmörkunum á valdi umræddra stofnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert