Unglingsstúlkur grunaðar um hryðjuverkaáform

Frá Nice þar sem tugir manna létust í hryðjuverkaárás í …
Frá Nice þar sem tugir manna létust í hryðjuverkaárás í sumar. AFP

Lögreglan í Nice í Frakklandi hefur handtekið tvær unglingsstúlkur vegna gruns um að þær hafi ætlað að fremja hryðjuverk að undirlagi fransks öfgamanns í Sýrlandi. Stúlkurnar tvær búa í sama hverfi og maðurinn sem drap 86 manns í hryðjuverkaárás í borginni á Bastilludaginn.

Engin vopn fundust á heimili stúlknanna, sem eru 17 og 19 ára gamlar, að sögn AFP-fréttastofunnar. Þær hafa sagt rannsóknarlögreglumönnum að þær hafi verið í sambandi við Rachid Kassim, franskan jíhadista sem starfar á svæðum Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak. Þær hafi jafnframt viðurkennt að þær hafi lagt á ráðin um árás en hætt við þau áform.

Franska leyniþjónustan þekkti ekki til yngri stúlkunnar en hún hefur viðurkennt að hún „hati hermenn“. Hún var ákærð fyrir að umgangast grunaða hryðjuverkamenn. Leyniþjónustunni var hins vegar kunnugt um eldri stúlkuna, sem hefur verið í samskiptum við franskan ríkisborgara sem safnar liði fyrir Ríki íslams. Þegar hún var 17 ára hugðist hún fara til Sýrlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert