Ekkert mál að fylgjast með kappræðunum

Undirbúningur fyrir kappræðurnar er í hámarki.
Undirbúningur fyrir kappræðurnar er í hámarki. AFP

Áhugasamir um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum þurfa ekki að örvænta yfir því að missa af fyrstu kappræðum Hillary Clinton og Donald Trump, sem hefjast kl. 1 í nótt að íslenskum tíma.

Þegar um er að ræða kappræður forsetaefna Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins er þeim sjónvarpað á öllum stærstu sjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna, ólíkt því sem gengur og gerist þegar forvalið stendur yfir.

Kappræðurnar í kvöld verða sýndar á ABC, NBC, Fox, CBS, MSNBC, Fox News, CNN, Univision og C-SPAN. Þá munu flestar stöðvanna streyma beint frá viðburðinum á vefsíðum sínum, en það er ekki víst að Íslendingar hafi aðgang að því.

Ef þú ert ekki með áskrift að ofangreindum stöðvum er samt óþarfi að fara á taugum; margir netmiðlar munu einnig streyma frá kappræðunum, s.s. Buzzfeed News, The Daily Caller, Huffington Post, Politico og Yahoo. Samkvæmt Wired munu Telemundo, Wall Street Journal og Hulu einnig verða í beinni.

Samskiptamiðlarnir hyggjast ekki láta sitt eftir liggja og verður hægt að nálgast streymi, myndskeið og ýmsa umfjöllun á YouTube, Facebook, Twitter og Snapchat.

Kappræðurnar hefjast sem fyrr segir kl. 1 í nótt og munu standa í 90 mínútur. Stjórnandi og spyrill er Lester Holt hjá NBC. Kappræðurnar eru hinar fyrstu af þremur, en hinar fara fram 9. október og 19. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert