Guzmán bíður niðurstöðu dómarans

AFP

Dómari í Mexíkó mun í dag kveða úr um hvort eiturlyfjabaróninn Joaquin Guzmán verði framseldur til Bandaríkjanna. Lögmenn Guzmán segja að ef dómari fellst á framsalskröfuna þá verði niðurstöðunni strax áfrýjað. 

Einn af lögfræðingum Guzmáns, Jose Refugio Rodriguez, segir í samtali við AFP fréttastofuna að Guzmán sé mjög rólegur yfir málinu en von er á niðurstöðu dómstóls í Mexíkóborg í dag.

Utanríkisráðuneytið heimilaði framsalið í maí en Guzmán fékk tímabundið lögbann á framsalið í júní. Það er því í höndum dómara að kveða úr um hvort eiturlyfjabaróninn verði látinn svara til saka fyrir glæpi sína í nágrannaríkinu.

Bandarísk yfirvöld vonast til þess að Guzmán verði framseldur fyrir lok árs en þar á hann yfir höfði sér dóma fyrir morð og eiturlyfjasmygl bæði í Texas og Kaliforníu. 

Guzmán var handtekinn í febrúar 2014 eftir að hafa verið 13 ár á flótta. Hann flúði úr fangelsi í fyrra en var handtekinn í janúar. Hann er nú fangi í sérstöku öryggisfangelsi í Ciudad Juarez, borg við landamæri Texas. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert