„James Bond“ ákærður fyrir skattsvik

Werner Mauss í dómsalnum í morgun.
Werner Mauss í dómsalnum í morgun. AFP

Réttarhöld yfir fyrrverandi þýskum leyniþjónustumanni, Werner Mauss sem kallaður hefur verið hinn þýski James Bond, hófust í dag en hann er sakaður um að hafa skotið milljónum evra undan skatti sem gæti þýtt allt að tíu ára fangelsi.

Fram kemur í frétt AFP að Mauss, sem er 76 ára gamall, hafi gjarnan verið falið að sinna leynilegum aðgerðum á erlendri grundu en leynileg fjármál hans séu tilefni réttarhaldanna. Hann er sakaður um að hafa ekki gefið tæplega 14,5 milljónir evra upp til skatts á árunum 2002-2013 eða sem nemur tæpum 1,9 milljarði króna.

Saksóknarar telja að Mauss hafi geymt háar fjárhæðir í leynilegum reikningum á aflandseyjum. Þar á meðal á Bahama-eyjum. Lögreglan komst á snoðir um undanskotin þegar upplýsingar um hann fundust á geisladisk sem stjórnvöld í þýska ríkinu Nordrhein-Westfalen keyptu af uppljóstrara. Frekari upplýsingar um hann fundust síðan í Panama-skjölunum.

Mauss hefur vísað því á bug að hann hafi gerst sekur um eitthvað ólögmætt. Reikningarnir sem um ræði hafi tengst aðgerðum til þess að leysa gísla úr haldi. Tekist verður á um það fyrir dómi hvort félögin hafi tengst slíkum aðgerðum eða hvort þeir hafi snúist um það að fela tekjur með ólögmætum hætti.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert