Sakar Rússa um villimennsku

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Samantha Power, sakaði Rússa um villimennsku í gær út af sprengjuárásum í Aleppo.

BBC segir svo frá að Power hafi á fundi hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna harðlega gagnrýnt Rússa og sakað þá um lygar.

Hún sagði að Rússar og sýrlensk yfirvöld væru endanlega að leggja í rúst það sem eftir væri af hinni sögulegu borg í Mið-Austurlöndum sem kallast Aleppo. En frá því að uppreisnin hófst í Sýrlandi hafa hvað harðastir bardagarnir verið í Aleppo og eru það enn. Ljósmyndir og drónamyndir sýna þessa áður fögru borg vera orðna að rústum í dag.

Power sagði að Rússar hefðu slík áhrif að þeir hefðu fyrir löngu getað linað þjáningarnar á svæðinu en ekki gert það. „Í stað þess að vilja frið, þá vilja Rússar og Assad stríð.“

Power hélt því fram að á meðan utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov hélt ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum um vilja Rússa til að koma á friði í Sýrlandi hefðu Rússar í raun verið að undirbúa loftárásir, á einmitt þeirri stundu.

Rússar svöruðu fullum hálsi og sögðust vera að losa Sýrland við hryðjuverkamenn. Sendiherra Rússa hjá öryggisráðinu, Vitaly Ivanovich Churkin, sagði að það að koma á friði væri orðið nánast ómögulegt verkefni. Hann sakaði einnig uppreisnaröflin í Sýrlandi um að hafa margbrotið vopnahléið.

Rússar bera ekki ábyrgð

Að sögn samtakanna Save the Children var næstum helmingur af fórnarlömbum loftárásanna í Aleppo undanfarna daga börn. Á einum spítalanum voru 43% sjúklinganna á laugardaginn börn.

Rússland hefur neitað að bera ábyrgð á árás á bílalest hjálparsamtaka í síðustu viku. Sú árás eyðilagði 18 af 31 flutningabíl sem var með hjálpargögn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert