Dreifa varnarúða til að nota á flóttafólk

Daniel Carlsen
Daniel Carlsen

Danskur þjóðernisflokkur, Dansker­nes Parti, hefur vakið hörð viðbrögð meðal almennings eftir að félagar í flokknum dreifðu í jóska bænum Haderslev yfir 100 brúsum af flóttamannaúða.

Flokkurinn, sem var stofnaður af ný-nasistum og hefur á stefnuskrá sinni að reka eigi alla innflytjendur, sem ekki eru frá vestrænum ríkjum, úr landi í Danmörku, lét skrifa á brúsa með hárúða - flóttamannaúði - löglegur og virkur. Formaður flokksins, Daniel Carlsen, segir að úðinn sé löglegur en virki svipað og piparúði sem er ólöglegur í Danmörku. Hann segir að það eigi vel við að dreifa úðanum í Haderslev þar sem fréttir hafi borist að því að konur í bænum hafi verið áreittar af flóttamönnum og hælisleitendum.

„Ég tel ekki að við séum að ögra. Við erum að taka á raunverulegu vandamáli í þjóðfélagi okkar, þar sem margir Danir óttast um öryggi sitt. Meðal annars vegna þess hversu margir flóttamenn eru í landinu og meðal annars vegna þess að fólk fær ekki að verja sig,“ segir Carlsen í viðtali við TV Syd.

Ein kona sem TV Syd ræddi við segist vera orðlaus vegna úðabrúsanna. „Mér finnst þetta vera viðbjóður. Þetta er einfaldlega móðgandi,“ segir Helle Byg í viðtalinu. Önnur kona, Charlotte Bech, var svo slegin að hún gat varla tjáð sig. Hún segir að það sé tvennt ólíkt - að efast um að Danmörk geti tekið á móti mörgum flóttamönnum og hvort þeir geti samlagast danskri menningu. Annað sé að gera grín að fólki á þennan hátt. Það sé einfaldlega ekki í lagi.

En aðrir voru alsælir með úðabrúsana. Hugmyndin á bak við þá sé í samræmi við þeirrar skoðanir og ekki veiti af því að verja sig fyrir öllum þessum flóttamönnum.

Carlsen segir í myndskeiði á Twitter að þeir hafi dreift 137 brúsum og að flokkurinn ætli að halda áfram með verkefnið.

Frétt mbl.is: Segir Íslendinga skammast sín

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert