Einn látinn og tveir í lífshættu

Lögreglan rannsakar vettvanginn í Malmö á sunnudagskvöldið.
Lögreglan rannsakar vettvanginn í Malmö á sunnudagskvöldið. AFP

Illa gengur að fá vitni til að tjá sig um skotárásina í Malmö á sunnudagskvöldið. Einn af þeim fjórum sem særðust í árásinni lést í gær af völdum áverka sinna. Einn þeirra hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi en tveir eru með lífshættulega áverka.

Frétt mbl.is: Barn slapp naumlega

Árásin var gerð í Fosie-hverfinu um kvöldmatarleytið á sunnudag. Að sögn vitna þá var um eltingarleik að ræða, vopnaðir menn á vélhjólum eltu bifreið sem fjórmenningarnir voru í. Árásarmennirnir, sem voru grímuklæddir, fjölmörgum skotum á bifreiðina og nærliggjandi hús en samkvæmt heimildum Aftonbladet var árásin mjög fagmannleg og virtist beinast að ökumanni bifreiðarinnar. Hann er með dóma á bakinu fyrir líkamsárásir, rán og eiturlyfjasölu. Hann tengist meðal annars morði í Malmö í mars. Árásarmennirnir flúðu síðan af vettvangi á vélhjólunum.

Í frétt Sydsvenskan í dag er farið yfir feril mannsins, en hann lést í árásinni. Maðurinn fæddist árið 1997 og fékk fyrsta dóminn árið 2012 þegar hann var 15 ára gamall. Þá fékk hann þriggja mánaða dóm fyrir árás, rán og ránstilraun. Meðal annars var hann dæmdur fyrir að hafa ásamt jafnaldra sínum rænt farsímum af unglingsstúlkum. 

Að sögn lögreglu hefur gengið illa að fá nánari lýsingar á atburðarrásinni þar sem fólk er hrætt við að tjá sig við lögreglu af ótta við að blandast inn í átök milli skipulagðra glæpasamtaka. Mennirnir fjórir í bílnum eru allir um tvítugt og hafa allir komist í kast við lögin, en enginn jafn oft og bílstjórinn.

Lögreglan leitar enn árásarmannanna við Censorgaten en ekki virðist liggja nákvæmlega fyrir hvort þeir voru tveir eða þrír.

Frétt Aftonbladet

Sænska lögreglan að störfum í Malmö á sunnudagskvöldið.
Sænska lögreglan að störfum í Malmö á sunnudagskvöldið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert