ESB-her dregur ekki úr gildi NATO

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO. AFP

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, segir að áætlanir Evrópusambandsins um aukið varnarsamstarf eftir brotthvarf Breta úr ESB muni ekki draga úr gildi NATO.

Stoltenberg segir að það sé engin mótsögn í sterku varnarsamstarfi innan ESB og sterku varnarbandalagi NATO. Heldur muni bandalögin styðja hvort annað. Hann er staddur á fundi varnarmálaráðherra ESB-ríkjanna í höfuðborg Slóvakíu, Bratislava.

Hann segir mikilvægt að komið sé í veg fyrir endurtekningu en varnarmálaráðherra Bretlands, Michael Fallon, segir að Bretar muni áfram vera andsnúnir hugmyndinni um ESB-her og að hugmyndir ESB um að auka varnarstarf ríkjanna eftir Brexit muni draga úr gildi NATO.

Á fundinum er verið að ræða hugmyndir Frakka og Þjóðverja um meira varnarsamstarf og hvar hernaðarhöfuðstöðvar ESB eigi að vera eftir að samþykkt var nýverið að auka varnarsamstarfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert