Johnson stoltur þvottavélaeigandi

Utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson.
Utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson. AFP

Boris Johnson, utanríkiráðherra Bretlands, brái ekki útaf vananum og hundsaði allar háttvísisreglur í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Tyrklands. Á blaðamannafundi með Ömer Çelik, ráðherra ESB-mála, tók hann sérstaklega fram að hann væri stoltur eigandi fallegrar tyrkneskrar þvottavélar.

Fyrir nokkrum mánuðum hlaut Johnson fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni breska tímaritsins Spectator um Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. Þar sagði hann forsetann stunda kynlíf með  geit.

Frétt mbl.is: Hefur móðgað fólk um allan heim

Johnson, sem á ættir að rekja til Tyrklands, hóf heimsóknina í Tyrklandi með því að heimsækja flóttamannabúðir fyrir Sýrlendinga í suðausturhluta Tyrklands áður en hann hélt til Ankara.

Að sögn Johnson munu Bretar sanda þétt við bakið á Tyrkjum en tilgangur ferðarinnar er að styrkja tengsl ríkjanna áður en að Brexit verður að veruleika. Bretar muni styðja Tyrki varðandi aðildarumsókn að ESB þrátt fyrir að Bretar hafi valið útgöngu.

„Við erum kannski að yfirgefa Evrópusambandið en við erum ekki að yfirgefa Evrópu. Og Bretland... mun hjálpa Tyrkjum á allan hátt,“ sagði Johnson á blaðamannafundinum.

Ráðherrann var einn helsti stuðningsmaður Brexit en hann hafði áður verið ötull stuðningsmaður þess að Tyrkir fengju inngöngu í ESB. Margir Tyrkir óttast um framtíð sína í Bretlandi en milljónir Tyrkja búa þar og starfa.

Johnson er ekki bara stoltur eigandi tyrkneskrar þvottavélar því langafi hans, Ali Kemal, var stjórnmálamaður og blaðamaður snemma á síðustu öld í Tyrklandi og segist Johnson hafa hitt nokkra ættingja síðasta sólarhringinn í Tyrklandi.

Hann heimsótti Nizip flóttamannabúðirnar í Gaziantep-héraði skammt frá landamærum Sýrlands. Alls eru þrjár milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi en tyrknesk yfirvöld hafa þrýst mjög á að sett verði upp örugg svæði fyrir íbúa Sýrlandamegin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert