Loftslagsarfleið Obama að veði í dómsmáli

Áætlun Obama um hreina orku felur í sér að starfsemi …
Áætlun Obama um hreina orku felur í sér að starfsemi kolaorkuvera í Bandaríkjunum drægist verulega saman og endurnýjanlegir orkugjafar ryðji sér frekar til rúms. AFP

Hornsteinn loftslagsaðgerða Baracks Obama Bandaríkjaforseta kemur til kasta dómstóla í dag. Tekið verður fyrir hvort að umhverfisstofnun landsins hafi farið fram úr valdheimildum sínum þegar hún setti reglur sem skylda ríki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Áætlun Obama um hreina orku (e. Clean Power Plan) kveður á um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 30% miðað við 2005 fyrir árið 2030. Umhverfisstofnunin gaf út reglur árið 2014 sem skylda stjórnvöld í einstökum ríkjum til að leggja fram áætlanir um hvernig þau ætla að ná því markmiði.

Frétt mbl.is: Draga verulega úr starfsemi kolaorkuvera

Í áætluninni felst einnig að verulega verði dregið úr starfsemi kolaorkuvera. Ríkin og fyrirtækin geta náð markmiðinu með að byggja upp endurnýjanlega orkugjafa eins og sólar-, vind- og kjarnorku.

Afdrifaríkt fyrir loftslagsaðgerðir vestanhafs

Hópur ríkissaksóknara 27 ríkja ásamt nokkrum kolafyrirtækjum, veitufyrirtækjum og stórum hópi þingmanna Repúblikanaflokksins fóru með málið fyrir dómstóla. Krafa þeirra er að áætlunin um hreina orku verði felld úr gildi þar sem umhverfisstofnunin hafi farið út fyrir valdheimildir. Saksóknararnir segja að málið snúist ekki um andstöðu við aðgerðirnar sem slíkar heldur hvort að ríkisstofnun geti tekið fram fyrir hendurnar á einstökum ríkjum við lagasetningar.

Auk umhverfisstofnunarinnar verða til andsvara fyrir áfrýjunardómstóli á Columbia-svæðinu nokkur helstu náttúruverndarsamtök Bandaríkjanna, loftslagsfræðingar og jafnvel tæknifyrirtæki eins og Apple sem styðja stofnunina í málinu, að sögn Washington Post.

Áætlun Obama um hreina orku er lykilþáttur fyrir Bandaríkin í að ná þeim markmiðum sem þau settu sér fyrir Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum. Niðurstaða dómsmálsins getur því haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir loftslagsaðgerðir Bandaríkjanna.

Úrræði til að komast hjá andstöðu repúblikana

Ástæðan fyrir því að svo veigamikill þáttur í loftslagsáætlun forsetans var framkvæmd með því að láta umhverfisstofnun Bandaríkjanna setja reglugerð frekar en með lagafrumvarpi var andstaða repúblikana gegn hvers kyns aðgerðum í lofslagsmálum. Afneitun á loftslagsvísindum hefur verið landlæg í röðum þeirra undanfarin ár en þeir hafa nú meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.

Í ljósi þessarar andstöðu og brýnnar nauðsynjar þess að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga sem hún veldur brá forsetinn á það ráð að láta umhverfisstofnunina setja reglur til að draga úr losun. Sú heimild byggist á dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 2007 þar sem staðfest var að umhverfisstofnunin hefði heimild til að setja reglur um losun koltvísýrings í samræmi við lögin um hrein loft (e. Clean Air Act).

Andstæðingar reglna umhverfisstofnunarinnar fullyrða að þær gangi lengra en lögin um hreint loft kveði á um. 

Hæstiréttur frestaði réttaráhrifum reglnanna í febrúar þrátt fyrir að málið hafi ekki komið formlega inn á borð hans. Málið kemur nú til kasta fjölskipaðs áfrýjunardómstóls. Ekki er búist við því að hann komist að niðurstöðu fyrr en eftir forsetakosningarnar í nóvember.

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert