Staðhæfingar Trumps hraktar

Fjölmiðlar hafa keppst við að kanna staðhæfingar Hillary Clinton og Donalds Trump, forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum, eftir fyrstu kappræður þeirra í nótt. Flestar staðhæfingar Clinton virðast hafa verið réttar, samkvæmt sérfræðingum, á meðan margar fullyrðingar Trumps hafa verið hraktar.  

Frétt mbl.is: Clinton hafði betur samkvæmt CNN

Hlýnun jarðar

Trump hélt því fram að hann hefði ekki sagt að hlýnun jarðar væri gabb sem Kínverjar hefðu fundið upp.

Hið rétta er að Trump tísti þessu í nóvember 2012: „Hugtakið hlýnun jarðar var búið til af Kínverjum og fyrir þá“.

Frambjóðandinn Bernie Sanders vakti aftur athygli á tístinu í janúar síðastliðnum og daginn eftir sagði Trump að tístið hafi verið grín. „Ég grínast oft með að þetta sé gert fyrir Kínverja. Þetta er augljóslega grín,“ sagði hann en bætti við að Kínverjar hafi ekkert gert í baráttunni gegn mengun.

Trump hefur nokkrum sinnum á árunum 2012 til 2015 sagt hlýnun jarðar vera gabb, þó svo að hann hafi ekki kennt Kínverjum um standa á bakvið það.

Þetta kom fram í umfjöllun ABC News

Donald Trump og Hillary Clinton takast í hendur að kappræðunum …
Donald Trump og Hillary Clinton takast í hendur að kappræðunum loknum. AFP

Ríki íslams

Trump hélt því fram að Clinton hefði verið að berjast gegn Ríki íslams öll sín fullorðinsár.

Hið rétta er að Ríki íslams á rætur sínar að rekja til hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída í Írak, sem sunní-múslimar stofnuðu þar í landi árið 2004 eftir að Bandaríkin réðust inn í Írak. Árið 2013 hófu samtökin að kalla sig Ríki íslams í Írak og al Sham og fóru einnig að horfa til Sýrlands. Clinton er 68 ára gömul og varð 18 ára 1965, fyrir tæpu 51 ári síðan. 

Fæðingarvottorð Obama

Trump sagði að Hillary Clinton hafi barist fyrir því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ætti að birta fæðingarvottorð sitt en Trump var hluti af hreyfingu sem hélt því fram að að Obama hefði ekki fæðst á Hawaii í Bandaríkjunum heldur í Kenía.

Stuðningsmenn Clinton hafa verið sakaðir um að hafa dreift tölvupósti þess efnis að Obama hafi fæðst í Kenía. Þetta á að hafa gerst á meðan Clinton og Obama sóttust bæði eftir því að verða forsetaefni Demókrataflokksins á árunum 2007 til 2008. Aldrei hefur þó sannast að Clinton eða stuðningsmenn hennar hafi dreift þessum tölvupósti.  

Íraksstríðið 

Í kappræðunum í nótt sagðist Trump ekki hafa stutt stríðið í Írak en Bandaríkjamenn réðust þangað inn árið 2003.

Þetta er rangt því í viðtali við Howard Stern árið 2002 þegar hann var spurður hvort hann styddi innrásina í Írak sagði Trump: „Já, ég býst við því“.

Ófrískar konur á vinnustöðum

Trump neitaði því einnig að hafa sagt að það kæmi sér illa fyrir vinnuveitendur ef starfsmenn þeirra verða ófrískir.

Engu að síður hélt hann þessu  fram í viðtali í þættinum Dateline á NBC árið 2004. Þar sagði hann þungun vera „yndislega fyrir konuna, yndislega fyrir eiginmanninn en koma sér illa fyrir viðskipti. Hvort sem fólk vill segja það eða ekki þá er staðreyndin sú að hún kemur sér illa fyrir manneskju sem rekur fyrirtæki.“

Spyrjandinn Holt gagnrýndur

Frammistaða spyrjandans Lesters Holt hefur verið gagnrýnd nokkuð, sérstaklega var hann sagður leyfa Trump að grípa hvað eftir annað fram í fyrir Clinton. Einnig fengu frambjóðendurnir að fara langt yfir tímamörkin sem þeim voru sett í svörum sínum. Jafnframt var Holt gagnrýndur fyrir að hrekja ekki svör frambjóðendanna oftar, sérstaklega svör Trumps.

Eftir kappræðurnar kvaðst Trump vera ánægður með frammistöðu Holts og kosningastjóri Clinton var sama sinnis.

Frambjóðendurnir tókust á í kappræðunum.
Frambjóðendurnir tókust á í kappræðunum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert