Fordæmalaus þjáning

Barn er flutt á spítala eftir sprengjuárás í Aleppo.
Barn er flutt á spítala eftir sprengjuárás í Aleppo. AFP

Að minnsta kosti 96 börn hafa látist og 223 særst í austurhluta Aleppo í Sýrlandi frá því á fimmtudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstoðarframkvæmdastjóra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

„Börnin í Aleppo eru föst í lifandi martröð,“ segir Justin Forsyth. „Það eru engin orð til að lýsa þeim þjáningum sem þau eru að upplifa.“

Heilbrigðiskerfið í austurhluta Aleppo er að hruni komið og aðeins 30 læknar að störfum. Búnaður og neyðarlyf til að hjálpa slösuðum eru að þrotum komin en slösuðum fjölgar sífellt.

Læknir á vettvangi greindi UNICEF frá því að börn í alvarlegri lífshættu væru oft skilin eftir til að deyja, vegna takmarkaðrar afkastagetu og skorts á sjúkragögnum.

„Ekkert réttlætir slíkar árásir á börn og algjöra lítilsvirðingu gagnvart mannslífinu. Þjáningin, og áfallið fyrir börnin, er án efa það versta sem við höfum séð.“

Á Facebook-síðu UNICEF á Íslandi má fylgjst með fregnum frá Sýrlandi. Þá er neyðarsöfnun samtakanna í fullum gangi og hafa þúsundir þegar lagt sitt af mörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert