Gert að kaupa sjálf beltisframlengingu í strætó

Frode Børstad, hjá samgöngueftirliti norsku vegagerðarinnar kannast við að farþegar …
Frode Børstad, hjá samgöngueftirliti norsku vegagerðarinnar kannast við að farþegar kvarti yfir að beltinn séu of stutt, en segir fyrirtækin samt hafa sitt á þurru á meðan að beltin séu samþykkt..

Yfirvöld í Noregi tóku í síðustu viku að sekta þá farþega og ökumenn strætisvagna sem aka á milli bæjarfélaga fyrir að  nota ekki bílbelti. Þá vikuna voru 161 farþegi og 10 bílstjórar sektaðir um 1.500 norskar krónur hver – eða um 21.000 íslenskar krónur.

Monica Cesilie Pedersen er hins vegar ekki sátt við viðbrögð strætófyrirtækisins síns við því að beltin séu ekki nógu stór, en hún er ekki með bílpróf og tekur strætó næstum daglega.

„Ég er stór og ég get ekki spennt beltið. Það er of stutt,“ sagði Monica í samtali við Adresseavisen.

Monica hefur lengi fundið fyrir óöryggi við í strætó af því hún getur ekki spennt beltið. Það var hins vegar þegar bílstjórinn bað farþega að spenna beltin þar sem búast mætti við að strætó yrði stoppaður á nokkrum stöðum til að kanna hverjir væru með bílbelti sem hún gat ekki lengur setið á sér.

„Skammast sín fyrir að láta aðra sjá að maður sé of stór“

„Ég sá að aðrir farþegar voru svolítið stressaðir og byrjuðu að spenna beltin, en ég vissi að það var tilgangslaust að reyna,“ segir hún. Hún sá líka nýlegt plakat í vagninum sem greindi frá hertu bílbeltaeftirliti.

„Ég vil ekki fá sekt fyrir að geta ekki spennt á mig beltið. Það er óréttlátt.“ Monica er heyrnarlaus og á þess vegna ekki svo auðvelt með að útskýra fyrir bílstjóranum að hún geti ekki spent beltið,“ sagir sambýlismaður hennar og túlkur, Jan André Vullum.

„Maður skammast sín fyrir að láta aðra sjá að maður sé of stór til að geta spennt beltið. Mér finnst ég verða að athlægi.“

Hún tekur oftast strætó þeim tíma morguns sem hvað flestir eru í vagninum. „Svo sit ég þarna og læt eins og ekkert sé af því að það er svo pínlegt að geta ekki spennt beltið.“ Hún situr því og vonar í hverri ferð að vagninn verði ekki stöðvaður.

Henni finnst þetta þó ekki vera mál sem hún eigi að berjast fyrir, enda séu margir aðrir í ofþyngd, aukinheldur sem fjöldi óléttra kvenna geti ekki heldur nýtt beltið.

Hver vísar á annan

Monica tók því málið upp við strætófyrirtækið AtB til að kanna hver bæri ábyrgð á bílbeltastærðinni.

„Mér var sagt að það væri framleiðandi strætisvagnanna. Þeir vísuðu svo á vegagerðina og lögreglu, sem mun nú væntanlega bara annast eftirlitið.“

„Það er ekki hægt að hver vísi á annað. Þetta er varla svo erfitt vandamál að leysa,“ segir hún.

Frode Børstad, hjá samgöngueftirliti norsku vegagerðarinnar kannast við að farþegar kvarti yfir að beltin séu of stutt. „Þetta er vandmál sem við höfum rætt og ég skil vel að fólk hafi áhyggjur“ segir hann. „Strætófyrirtækjunum er gert að nota samþykkt bílbelti og það er ekki hægt að saka þau um að beltin séu of stutt. Þau hafa sitt á þurru svo framarlega sem beltin eru samþykkt.

Hann hvetur fyrirtækin þó til að kaupa framlengingu fyrir bílbeltin og að hafa slíkan búnað í hverjum vagni, þó þeim beri ekki lagaleg skylda til.

Hættan á rýrnun of mikil

Jon Olav Sætertrø hjá fyrirtækinu Nettbuss AS, telur farþegana hins vegar sjálfa eiga að eiga framlengingar. „Ef maður er með eitt svoleiðis í töskunni þá er hægt að nota það bæði í strætó og í flugi,“ segir hann.

Hvað fyrirtækið varði sé hættan á rýrnun of mikil. „Það er hætta á að þau hverfi. Þetta er vara sem er auðvelt og ódýrt að eignast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert