Shimon Peres látinn

Shimon Peres, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Ísraels lést í nótt, …
Shimon Peres, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Ísraels lést í nótt, 93 ára að aldri. AFP

Shimon Peres, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Ísraels lést í nótt, 93 ára að aldri. Peres, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1994 fékk alvarlegt hjartaáfall fyrir hálfum mánuði. Hann hafði verið á batavegi undanfarna viku, þar til honum hrakaði á ný í gær.

Chemi, sonur Peres, sagði föður sinn hafa verið „einn af stofnendum Ísraelsríkis“ og að hann hefði helgað líf sitt starfinu fyrir landið.

Fréttavefur BBC segir Peres hafa verið einn af síðustu eftirlifandi stjórnmálamönnum Ísraels sem tóku þátt í stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

Peres gegndi í tvígang embætti forsætisráðherra landsins og var forseti á árunum 2007-2014. Árið 1994 hlaut hann friðarverðlaun Nóbels ásamt  þeim Yitzhak Rabín, forsætisráðherra Ísrael, og Yasser Arafat, leiðtoga Palestínu, fyrir hlutverk sitt í Óslóarsamningunum svokölluðu, þar sem sjónum var beint að sjálfstæðu Palestínuríki.

Peres sagði eitt sinn að Palestínumenn væru „næstu nágrannar“ Ísraela og gætu orðið „nánustu vinir“ þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert