Stálu Buddy og sendu á haf út

Afríska mörgæsin velur sér maka fyrir lífstíð, þannig að það …
Afríska mörgæsin velur sér maka fyrir lífstíð, þannig að það getur verið erfitt að finna nýjan maka fyrir Francis. Wikipedia

Örvæntingarfull leit stendur nú yfir Suður-Afríku að afrísku mörgæsinni Buddy, sem aðgerðarsinnar kunna óafvitandi  að hafa sent út í opinn dauðann.

Buddy, sem er afrísk mörgæs í útrýmingarhættu, var stolið úr Bayworld sjálfardýragarðinum í Port Elizabeth, af tveimur námsmönnum sem vildu með þjófnaðinum mótmæla því að dýrum sé haldið í búrum.

Buddy hefur hins vegar ekki hugmynd um hvernig hann á að afla sér lífsbjargar úti í náttúrunni, þar sem hann fæddist í garðinum. Segja sérfræðingar hann ekki geta lifað meira en þrjár vikur úti í náttúrunni.

„Hann er fullkomlega vanhæfur til að takast á við lífið fyrir utan. Hann mun ekki hafa hugmynd um hvar hann er staddur,“ sagði Dylan Bailey, framkvæmdastjóri Bayworld.  „Sem betur fer var hann mjög hraust mörgæs – frekar feitur raunar – þannig að hann á nokkurra vikna varaforða.“

Hvarfið á Buddy, uppgötvaðist daginn eftir að honum var stolið – þegar starfsfólk garðsins ætlaði að fara með hann í mánaðarlega heilsufarsskoðun sína.

Þegar farið var að skoða málið sást á upptökum úr eftirlitsmyndavélum hvar tveir stúdentar á tvítugsaldri klifruðu ofan í laugina og tóku Buddy, sem þeir settu í skott bifreiðar sinnar, áður en þeir slepptu honum á haf út í næsta nágrenni.

Nemarnir tveir ætluðu sér ekki að skaða Buddy, en aðgerðir þeirra kunna engu að síður að ófyrirséðar afleiðingar í för með sér. Buddy átti nefnilega tvo unga ásamt maka sínum Francis, þegar honum var stolið og eftir að hann hvarf dó annar unginn. Starfsmenn garðsins segjast ekki vita hvort atburðirnir séu tengdir, en óháð því þá geti Francis nú ekki yfirgefið hreiðrið þar sem Buddy geti ekki lengur sinnt unganum sem eftir er í fjarveru hennar.

Verra þykir þó að afríska mörgæsin er við það að rata á lista yfir dýrategundir í verulegri útrýmingarhættu.

Afríska mörgæsin velur sér maka fyrir lífstíð og  innan við 20.000 pör slík pör eru nú til úti í náttúrunni.  Það getur því reynst gott sem ómögulegt að finna Francis nýjan maka komi Buddy ekki í leitirnar á ný.

Starfsfólk Bayworld hefur undanfarið grandskoðað hundruð kílómetra svæði við strandlengjuna í von um að finna Buddy aftur. „Við erum bjartsýn,“ sagði Baily í samtali við fréttavef BBC. „Við erum vongóð um að hann komi aftur að landi áður en hann verður of veikburða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert