Svara fyrir gjörðir sínar fyrir Guði

Frans Páfi.
Frans Páfi. AFP

Frans páfi segir að þeir sem standi á bak við loftárásir í Aleppo verði að svara Guði fyrir aðgerðir sínar. Fjölmargir hafa látist í árás­um stjórn­ar­hers­ins og Rússa í Al­eppo frá því á fimmtu­dags­kvöldið.

„Ég biðla til samvisku þeirra sem standa að baki þessu sprengjuregni, þeirra sem verða að svara fyrir gjörðir sínar frammi fyrir Guði,“ sagði páfi í morgun en hann minntist hvorki á Sýrland né Rússland í ræðu sinni.

Hann talaði um mikinn sársauka og að hann hefði miklar áhyggjur af atburðunum í Aleppo en fjölmargar loftárásir hafa verið gerðar á Al-Mashhad og Sayf al-Dawla hverf­in sem eru í aust­ur­hluta borg­ar­inn­ar.

„Borgin er meidd. Börn, eldri borgarar, veikir, ungir og gamlir eru að deyja, svo margt fólk,“ sagði páfi.

Sendi­herra Bret­lands hjá Sam­einuðu þjóðunum seg­ir að árás­irn­ar und­an­farna daga hafa sett af stað enn eitt hel­vítið fyr­ir borg­ar­búa í Al­eppo og seg­ir hann þær ekk­ert annað en stríðsglæpi.

Ástandið í Aleppo er skelfilegt.
Ástandið í Aleppo er skelfilegt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert