Viðhaldsstjóri Buckingham í fangelsi

Fjöldi ferðamanna sækir Buckingham-höll heim á ári hverju. Drottningin dvelur …
Fjöldi ferðamanna sækir Buckingham-höll heim á ári hverju. Drottningin dvelur í höllinni hluta úr ári. AFP

Embættismaður sem hafði það hlutverk að sinna viðhaldi í Buckinham-höll hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að taka við mútum gegn því að úthluta ábatasömum verkefnum til ýmissa verktakafyrirtækja.

Ronald Harper, sem einnig hafði umsjón með viðhaldi St James's Palace, Clarence House og Windsor-kastala, er talinn hafa þegið um 14,8 milljónir króna í mútur vegna verkefna sem snéru að tækni- og rafmagnsvinnu í Buckingham-höll, opna listaverkasalnum í höllinni, St James's Palace og Kensington-höll.

Að sögn dómarans í málinu virtist Harper iðinn og tryggur, og var dáður og naut trausts samstarfsmanna sinna. Hann reyndist hins vegar eiga sér „óheiðarlega og gráðuga“ hlið.

„Enginn hefði trúað því að innanbúðarmaður á borð við þig gæti hugsað sér að ganga jafn langt og þú gerðir í gróðaskyni,“ sagði dómarinn. „Svik þín við kollega þína og skortur á eftirsjá eru ótrúleg.“

Harper tók m.a. við ólögmætum greiðslum frá fyrrverandi eigendum Melton Power Services og BSI Nordale. Þeir voru báðir dæmdir í 18 mánaða fangelsi vegna málsins.

Fimm fengu skilorðsbundan dóma fyrir að hafa verið viðriðnir samsærið en talið er að Harper hafi verið eini starfsmaður krúnunnar sem átti hlut að máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert