Hermaður flúði til Suður-Kóreu

Frá Norður-Kóreu.
Frá Norður-Kóreu. AFP

Hermaður í her Norður-Kóreu flúði fótgangandi yfir landamæri ríkjanna í nótt og gafst upp fyrir suðurkóreskum hermönnum. Flóttinn átti sér stað skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Suður-Kóreu.

Fram kemur í frétt AFP að ekki hafi verið heypt af neinum skotum þegar hermaðurinn fór yfir landamærin, sem eru girt af með miklu magni af gaddavír á báða bóga auk jarðsprengjubelta. Hundruð þúsunda hermanna beggja landa gæta landamæranna.

Hermaðurinn er nú í yfirheyrslum í Suður-Kóreu. Hundruð manna flýja Norður-Kóreu árlega en sjaldgæft er að gengið sé yfir landamærin. Það gerðist síðast í júní á síðasta ári þegar norðurkóreskur hermaður á unglingsaldri fór yfir landamærin.

Flestir sem flýja Norður-Kóreu fara fyrst til Kína og þaðan suður til annarra landa í Suðaustur-Asíu og loks til Suður-Kóreu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert