Í „skotstellingu“ með rafrettu

Friðsamleg mótmæli hafa farið fram tvö kvöld í röð í …
Friðsamleg mótmæli hafa farið fram tvö kvöld í röð í El Cajon. Meðal mótmælenda eru vinir Olangos, mannsins sem skotinn var til bana. AFP

Enn standa yfir mótmæli í El Cajon í Kaliforníu í kjölfar þess að lögreglumaður skaut óvopnaðan, svartan mann til bana á þriðjudagskvöld. Maðurinn hélt á rafrettu er hann var skotinn. Systir mannsins, sem hringdi í neyðarlínu og bað um aðstoð, sagði að bróðir sinn hagði sér undarlega. Hann glímdi við geðsjúkdóm og væri óvopnaður.

Í frétt CNN um málið segir að hinn 38 ára gamli Alfred Okwera Olango hafi dregið upp rafrettu úr vasa sínum og beint henni að lögreglumönnum sem gripu þá til vopna. Annar þeirra skaut hann með skammbyssu en hinn með rafbyssu. Maðurinn lést af sárum sínum.

Íbúar í El Cajon, sem er úthverfi San Diego, hafa í tvo sólarhringa mótmælt skotárásinni og krefjast þess að lögreglan birti myndbandsupptökur af vettvangi en bæði lögreglubílar og lögreglumenn eru með myndavélabúnað. Þá vilja mótmælendur að alríkislögreglan rannsaki dauða Olango.

Mótmælin hafa verið friðsamleg. Nokkrir mótmælendur hafa þó kastað vatnsflöskum að lögreglunni. Fólkið hefur m.a. safnast saman á bílastæðinu þar sem árásin átti sér stað. Lögreglumenn hafa einnig mætt á svæðið, búnir skjöldum og hjálmum á höfði.

Lögreglan í San Diego hefur ekki tjáð sig um málið að öðru leyti en því að birta ljósmynd þar sem hún segir Olango standa í „skotstellingu“ beint á móti lögreglumönnunum á bílastæði.

Það var ekki fyrr en í gærkvöldi að lögreglan gaf svo út að Olango hafi haldið á rafrettu, ekki vopni af nokkrum toga. Þá hafa fjölmiðlar vestanhafs upplýst að báðir lögreglumennirnir hafi unnið sem slíkir í yfir 20 ár.

Borgarstjórinn Bill Wells hélt blaðamannafund í gær og sagðist skilja óánægju íbúanna. Hann sagði að mótmælin væru „hávær og reiðileg“ en engu að síður friðsamleg.

„Þetta er réttur þeirra, að mótmæla,“ sagði hann. „Ég skil að þeim finnist raddir þeirra ekki heyrast nægilega og ég skil að þeir vilji meiri upplýsingar.“

Þá sagði Wells að hann hefði séð myndbandsupptöku af vettvangi og hún væri sársaukafull. Hann bað fólk að sýna þolinmæði á meðan rannsókn málsins væri í gangi.

„Ég sá mann sem var í miklu ójafnvægi, mann sem virtist líða mjög illa, og ég sá hann vera skotinn og drepinn og það braut hjarta mitt,“ sagði borgarstjórinn. „Ef þetta væri sonur minn væri ég eyðilagður.“

Síðdegis á þriðjudag var lögreglan kölluð að bílastæði í El Cajon. Sá sem hringdi á lögregluna sagði að á svæðinu væri maður sem hagaði sér mjög undarlega. Sagt var að viðkomandi „væri ekki líkur sjálfum sér“, hefði gengið í veg fyrir bíla á götunni og stefnt sjálfum sér og öðrum í hættu með háttalagi sínu. Konan sem hringdi sagðist vera systir mannsins og tók fram að hann glímdi við geðræn vandamál og væri óvopnaður. Lögreglustjórinn hefur staðfest þessa frásögn en segir að ekki hafi verið staðfest að konan sem hringdi hefði verið systir mannsins sem var skotinn.

„Við reyndum að fá hana til að tala við okkur en eins og þið getið skilið var hún í uppnámi. Hún var ekki samstarfsfús,“ sagði lögreglustjórinn sem í gær bað konuna um að gefa sig fram og koma til viðtals hjá lögreglunni.

Lögreglan hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að koma ekki á staðinn fyrr en að fimmtíu mínútum liðnum. Lögreglustjórinn segir að svo langan tíma hafi tekið að ljúka öðrum verkefnum sem lögreglumennirnir voru í.

Í frétt CNN segir að er lögreglumennirnir komu á staðinn hafi Olango gengið með hendur í vösum fram og til baka um bílastæðið. Þegar annar þeirra mundaði rafbyssu hafi maðurinn „skyndilega dregið upp hlut“, að sögn lögreglustjórans, og haldið um hann báðum höndum, „eins og þú myndir munda skotvopn.“

Lögreglan í El Cajon mun rannsaka málið og saksóknari svo fá það til skoðunar, að sögn lögreglustjórans. Spurður hvort að hann ætli að leita utanaðkomandi aðstoðar við rannsóknina svaraði hann: „Ég treysti mínum rannsakendum. Ég treysti kerfinu.“

Alfred Olango er sagður hafa glímt við geðræn vandamál. Hann …
Alfred Olango er sagður hafa glímt við geðræn vandamál. Hann beinti rafsígarettu að lögreglumönnum og var skotinn.
Hópur lögreglumanna vaktar mótmælendur á bílastæðinu þar sem maðurinn var …
Hópur lögreglumanna vaktar mótmælendur á bílastæðinu þar sem maðurinn var skotinn til bana. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert