„Heillandi“ raðmorðingi handtekinn

Shawn Grate hefur verið heimilislaus um hríð.
Shawn Grate hefur verið heimilislaus um hríð.

Karlmaður í Ohio hefur verið handtekinn vegna gruns um að hafa myrt að minnsta kosti fjórar konur. Kunningjar mannsins segir hann hafa mikið aðdráttarafl og hafa lag á því að heilla fólk upp úr skónum.

Samkvæmt frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar fundust lík tveggja kvenna fyrir um tveimur vikum í húsi í Ashland skammt frá Cleveland. Þriðju konunni, sem var haldið fanginni í húsinu, hafði þá tekist að hringja á lögregluna og gera vart við sig.

Í kjölfarið var hinn fertugi Shawn Grate handtekinn. Hann var svo ákærður fyrir 23 brot, m.a. morðin tvö og fyrir mannrán.

Lögreglan segir að Grate hafi ítrekað nauðgað konunni sem fannst á lífi og segist saksóknari ætla að fara fram á dauðadóm yfir honum. 

Við yfirheyrslu játaði Grate svo að hafa myrt aðra konu fyrr í sumar og eina til viðbótar árið 2005. Lögreglan telur að fórnarlömbin kunni að vera fleiri.

Þeir sem þekkja Grate lýsa honum sem miklu sjarmatrölli sem hafi þó dekkri hliðar. Einn fyrrverandi vinur hans segir í við Sky: „Hann bara hefur þetta lag á því að draga fólk að sér.“

Hann segir að þeir Grate hafi verið vinir þar til fyrir tveimur árum er Grate sendi honum heiftúðug skilaboð fyrir að vilja ekki lána sér pening. 

Grate hefur áður komið við sögu lögreglunnar m.a. vegna nálgunarbanns sem barnsmóðir hans fór fram á gegn honum árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert