Þræll fjölskyldunnar í fimm ár

Than Than Ei er 16 ára og andlit hennar er alsett örum eftir áralanga misnotkun.  Hún var níu ára þegar faðir hennar gaf hana til ættleiðingar. Síðan þá hefur líf hennar verið lifandi helvíti og hún þræll á heimili fjölskyldunnar. Saga hennar er enn eitt dæmið um þær brotalamir sem eru á barnaverndarmálum í Búrma. 

„Varir mínar voru hýddar með járnstöng,“ segir Than Than Ei í viðtali við AFP fréttastofuna. Hún lýsir í viðtalinu hvernig allt breyttist eftir að hún var ættleidd en á tíu ára afmælisdaginn var ofbeldið hafið. Hún var slegin nánast daglega í fimm ár með reiðhjólakeðju og eldhúsáhöldum.

„Þau voru líka vön að slá á  hendur mínar og hella heitu vatni yfir þær,“ segir Than. „Þau gáfu mér ekki að borða svo ég át án þess að fá leyfi til þess. Þá sökuðu þau mig um að stela mat og krömdu fingur mína með töngum.“

Tugir þúsunda barna hafa verið gefin eða seld í þrældóm í Búrma. Þar eru þau látin vinna heimilisstörf og önnur störf á heimilum fólks í millistétt. Að sögn aðgerðarsinna hafa stjórnvöld lítið gert til þess að taka á vandamálinu þar sem bæði lögregla og embættismenn taka ekki á ásökunum sem beinast gegn þeim ríku og valdameiri í landinu.

Málið kom á yfirborðið fyrr í mánuðinum þegar tvær stúlkur lýstu ofbeldinu sem þær urðu fyrir á heimili klæðskera í Yangon. 

Frétt mbl.is: „Ég vil fara heim“

Þær voru barðar, skorn­ar með hníf­um, neitað um svefn og mat af kon­unni og fjöl­skyldu henn­ar. Fyr­ir það fengu þær greidda smá­pen­inga. Þær fengu loks greidda 4 þúsund Bandaríkjadali í bætur vegna þrýstings frá almenningi. Í kjölfarið var fjölskyldan ákærð og voru sex fjölskyldumeðlimir klæðskerafjölskyldunnar dregnir fyrir rétt í gær ákærð fyrir mansal. 

Fjölskylda Than Than Ei segja að yfirvöld hafi ekki gert neitt þrátt fyrir að hafa verið upplýst um stöðu mála. Í tvígang hafi nágrannar látið lögreglu vita en lögregluþjónninn í hverfinu, sem er skyldur fjölskyldunni sem beitti ofbeldinu, gerði ekkert.

Than Than Ei tókst að lokum að flýja og frændi hennar, Myo Oo, lagði fram kæru á hendur fjölskyldunni þar sem hún var sökuð um tilraun til manndráps í júlí í fyrra. Einn úr fjölskyldunni var handtekinn en látinn laus og síðan gerðist ekkert í málinu í eitt ár. Í síðustu viku fór lögreglan hins vegar á heimili fjölskyldunnar og handtók þrjá til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert