Látinn dúsa í gæsluvarðhaldi eftir að fallið var frá málinu

AFP

Rúmlega þrítugur maður, sem var látinn dúsa í gæsluvarðhaldi í tvo mánuði í Danmörku eftir að fallið var frá málinu gegn honum, hefur höfðað skaðabótamál á hendur danska ríkinu. Alls sat maðurinn, sem er 32 ára, í gæsluvarðhaldi í fjóra mánuði.

Maðurinn, sem býr í Grikklandi, var handtekinn ásamt fjórum öðrum á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn í mars. Samkvæmt frétt Ritzau-fréttastofunnar var maðurinn á leið frá Grikklandi á leið til Svíþjóðar þar sem hann var boðinn í brúðkaup. Með honum í för var 24 ára gamall maður sem hafði fengið hæli í Grikklandi. Mennirnir voru handteknir nokkrum dögum eftir hryðjuverkaárásina á flugvellinum í Brussel.

Alls voru fimm menn handteknir grunaðir um að vera að skipuleggja hryðjuverk og mansal en mennirnir tveir sem voru á leið til Svíþjóðar voru þeir einu sem voru settir í gæsluvarðhald.

Málinu var haldið leyndu og því var ekki greint frá málinu opinberlega, það er grundvöllur fyrir gæsluvarðhaldsúrskurðinum var ekki birtur opinberlega. Ritzau segir að mennirnir hafi verið grunaðir um að hafa komið til Danmerkur í tengslum við hryðjuverkaárás sem átti að fremja á óþekktum stað og tíma í Danmörku.

Saksóknarar féllu frá málinu eftir tvo mánuði og sá yngri látinn laus. En sá eldri var hins vergar í haldi þangað til í lok júlí og hefur nú höfðað skaðabótamál gegn danska ríkinu. Hann fer fram á að fá greiddar 300 þúsund danskar krónur í skaðabætur. Lögmaður hans gagnrýnir málið harðlega og segir að það hafi verið byggt á mjög veikum grunni sem síðan reyndist ekkert hæft í.

Frétt The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert