Réttað yfir meintum morðingjum Nemtsov

Hinir ákærðu.
Hinir ákærðu. AFP

Réttarhöld hófust í dag yfir fimm Tsjetsjeníumönnum sem grunaðir eru um að hafa myrt stjórnmálamanninn Boris Nemtsov, sem var aðstoðarforsætisráðherra Boris Jeltsín og mikill gagnrýnandi Vladimir Pútín.

Nemtsov hugðist leiða mótmæli 1. mars 2015 en var skotinn fjórum sinnum í bakið tveimur dögum áður, þegar hann gekk yfir brú nærri Kreml.

Hinir ákærðu, sem eru sagðir hafa fengið greitt fyrir morðið, hafa neitað sök.

Fjölskylda Nemtsov hefur áhyggjur af því að sá sem fyrirskipaði morðið muni aldrei finnast. Lögmenn hennar sögðu við réttarhöldin í dag að rannsókn málsins hefði hvorki verið ítarleg né skilað tilskildum árangri.

Lögmaður Zaur Dadayev, fyrrverandi aðstoðarliðsforingja Sever-öryggissveitanna í Tsjetsjeníu, sem ku hafa tekið í gikkinn, sagðist saklaus þegar hann birtist fyrir dómi í dag. Sagt hefur verið frá því að Dadayev játaði glæpinn þegar hann var handtekinn en hélt því fram seinna að hann hefði verið pyntaður.

Annar grunaðra sprengdi sjálfan sig í loft upp með handsprengju þegar lögregla gerði tilraun til að handtaka hann í Grozny í mars 2015.

Nemtsov yfirgefur kjörklefa árið 2012.
Nemtsov yfirgefur kjörklefa árið 2012. AFP

Ákæruvaldið heldur því fram að mennirnir hafi fengið greiddar 15 milljón rúblur fyrir morðið, en morðvopnið hefur ekki fundist. 15 milljón rúblur gera tæpar 28 milljónir króna.

Saksóknarinn Olga Mikhailova sagði í dómsal í dag að nauðsynlegt væri að komast að því hver hefði fyrirskipað morðið og benti á að Ramzan Kadyrov, leiðtogi Tsjetsjeníu og gagnrýnandi rússnesku stjórnarandstöðunnar, hefði ekki verið yfirheyrður.

Þá sagði hún að engin upptaka hefði fundist af morðinu, jafnvel þótt það hefði átt sér stað við Kreml.

Ruslan Mukhudinov, ökumaður yfirmanna Sever-sveitanna, sem hefur verið sakaður um að skipuleggja morðið, hefur ekki verið handtekinn. Samstarfsmenn Nemtsov segja hins vegar að ákærurnar gegn Mukhudinov séu til þess gerðar að breiða yfir aðkomu hærra settra Tsjetsjeníumanna.

Sérfræðingar segja að Dadayev hefði ekki framið glæp af þessu tagi án samþykkis leiðtoga Tsjetsjeníu.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert