Ætla að birta gögn tengd forsetakosningunum

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, greindi frá því í dag að WikiLeaks muni á næstu vikum birta milljónir skjala sem tengjast kosningunum í Bandaríkjunum og yfirvöldum þriggja ríkja. Reuters-fréttastofan segir Assange þó neita því að birtingu skjalanna sé ætlað að koma höggi á Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins.

Á blaðamannafundi, sem haldinn var í gegnum netið, sagði Assange skjölin verða öll birt fyrir árslok og að fyrsti hluti gagnanna verði birtur á næstu vikum.

Assange dvelur enn í sendiráði Ekvador í Bandaríkjunum, en hann sótti um hæli þar árið 2012, eftir að sænsk yfirvöld óskuðu þess að fá hann framseldan. Assange sagði þýðingarmiklar upplýsingar tengdar kosningunum að finna í þeim gögnum sem birt yrðu fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 8. nóvember.

Assange gagnrýndi Clinton fyrir fullyrðingar hennar um WikiLeaks, í kjölfar þess að tölvupóstar frá landsnefnd Demókrataflokksins voru birtir á netinu í sumar.  Assange sagði starfsfólk kosningabaráttu Clinton hafa ranglega gefið í skyn að þeir sem færu inn á síðu WikiLeaks ættu á hættu að fá vírusa í tölvur sínar.

Hann hafnaði því þó alfarið að birtingu þeirra gagna sem tengjast forsetakosningunum væri sérstaklega ætlað að koma höggi á Clinton.

„Gögnin sem WikiLeaks mun birta fyrir árslok eru  [...] mjög mikilvæg og tengjast ólíkum málum sem hafa áhrif á þrenn valdamikil samtök í þremur ríkjum sem og [...] bandaríska kosningaferlið,“ sagði Assange á blaðamannafundi sem haldinn var í gegnum netið í tilefni af tíu ára afmæli WikiLeaks.

Assange sagði gögnin m.a. innhalda upplýsingar sem tengdust stríði, vopnum, olíu, eftirlitsaðgerðum, Google og bandarísku kosningunum, en neitaði að veita frekari upplýsingar.

„Það hefur verið ranglega haft eftir mér [...] gefið í skyn að við ætlum að koma höggi á Hillary Clinton, eða að ég ætli að vinna Hillary Clinton mein, eða að ég kunni ekki við Hillary Clinton. Allt þetta er rangt,“ sagði Assange.

Assange greindi fréttastofu FOX frá því, í viðtali sem tekið var í gegnum gervihnött í ágúst, að WikiLeaks hygðist birta mikilvæg gögn sem tengdust kosningabaráttu Clinton.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert