Lífstíðarfangelsi fyrir 160 alsælutöflur

Karlmenn bíða þess að vera fluttir á lögreglustöð eftir aðgerð …
Karlmenn bíða þess að vera fluttir á lögreglustöð eftir aðgerð fíkniefnalögreglunnar í Manila. AFP

Jeremy Eeaton, 34 ára Kanadamaður, hefur verið úrskurðaður í ævinlangt fangelsi á Filippseyjum fyrir að selja 160 alsælutöflur. Eaton var einnig skipað að greiða rúma milljón króna í sekt.

Kanadamaðurinn var handtekinn í júní sl. í fjármálahverfinu Makati í Manila. Skjót réttarhöldin má þakka nýrri stefnu landsins í fíkniefnamálum en 3.000 hafa látist í aðgerðum lögreglu frá því að forsetinn Rodrigo Duterte tók við völdum.

Duterte hefur sagt að hann muni ekki veigra sér við að drepa glæpamenn til að uppræta fíkiefnavandann.

Eaton hefur ávallt sagst saklaus.

„Ég gekk inn í bygginuna. Þá var komið aftan að mér og mér sagt að ég væri handtekinn,“ sagði hann skömmu eftir handtökuna. „Leitað var á mér. Ég var ekki með neitt á mér. Ég var aldrei með neitt á mér. Ég var bara á röngum stað á röngum tíma.“

Á sama tíma og Eaton var handtekinn var Ástrali að nafni Damian Berg einnig færður í gæsluvarðhald. Mál hans er enn til umfjöllunar í dómskerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert