Er þetta elsti köttur heims?

Hann Múskat er kominn til ára sinna. En hann kann …
Hann Múskat er kominn til ára sinna. En hann kann enn að meta góðan kjúkling. Af Facebook

Par í Newcastle á Englandi segir að kötturinn þeirra, hann Nutmeg (Múskat), hljóti að vera elsti köttur heims en hann er nú orðinn liðlega 31 árs gamall. 

Liz og Ian Finlay eru nú að reyna að fá staðfestingu á því hvort að Múskat sé allra katta elstur. Þau tóku hann að sér eftir að hafa fundið hann úti í garði árið 1990. Þá sögðu dýralæknar þeim að hann væri að minnsta kosti fimm ára gamall. 

„Við höldum upp á afmæli hans í mars á hverju ári því það var á þeim tíma árið 1990 sem við fengum hann,“ segir Ian Finlay í samtali við Newcastle Chronicle.

Liz og Ian segja að Múskat sé sjúkur í kjúkling og það skýri háan aldur hans. „Hann vekur okkur eldsnemma á hverjum morgni og við gefum honum. Við eigum ekkert barn svo hann er eiginlega barnið okkar.“

Samkvæmt heimsmetabók Guinness er kötturinn Corduroy elsti köttur veraldar. Hann er 26 ára og býr í Oregon í Bandaríkjunum. Eigandi hans segir að hái aldurinn skýrist af því að Corduroy fái að vera köttur, leika sér og veiða. 

En nú er spurning hvort að Múskat tekur toppsætið. Úr því verða fulltrúar heimsmetabókarinnar að skera, væntanlega með ítarlegri aldursgreiningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert