Er sigur úr augnsýn?

Donald Trump hótaði að fangelsa andstæðing sinn Hillary Clinton og sakaði eiginmann hennar um að misnota konur, í grimmilegum kappræðum sem stjórnmálaspekingar telja að muni ekki gera mikið til að lægja öldur helgarinnar.

Tugir milljóna fylgdust með kappræðunum í sjónvarpi en meðal viðstaddra í sal voru Bill Clinton og þrjár konur sem hafa sakað hann um kynferðislega misnotkun. Trump fór mikinn gegn forsetanum fyrrverandi og virtist hafa gefið upp á bátinn að virðast forsetalegur sjálfur.

Forsetaefni Repúblikanaflokksins brást við hneyksli helgarinnar með því að afgreiða ummæli sín um að „grípa í píkuna“ á konum sem „búningsklefahjal“, en staðhæfði að Bill Clinton hefði sannarlega misnotað konur.

„Ef þú horfir á Bill Clinton, þá er hann mun verri,“ sagði Trump. „Í mínu tilfelli voru þetta orð, í hans gjörðir.“

Viðskiptajöfurinn hótaði Hillary fangelsi og sagði hana hafa „hatur í hjarta.“

„Ef ég vinn ætla ég að fyrirskipa dómsmálaráðherra að skipa sérstakan saksóknara til að rannsaka þig, því það hafa aldrei verið svo margar lygar, svo miklar blekkingar.“

Forsetaefnið Clinton sagði ósæmileg ummæli Trump hins vegar afhjúpa hans innra sjálf.

„Þetta er Donald Trump og spurningin sem við stöndum andspænis, sem landið okkar verður að svara, er að þetta er ekki það sem við erum.“

Þegar Clinton sagði gott að maður með skapgerð Trump væri ekki við stjórnvölinn skaut síðarnefndi til baka: „Því þá værir þú í fangelsi.“

Samkvæmt niðurstöðum könnunar CNN vann Clinton kappræðurnar með 57% gegn 34% Trump. Samkvæmt YouGov var mjórra á munum, 47% gegn 42%.

„Misbeiting valds“

Eric Holder, fyrrverandi dómsmálaráðherra undir Barack Obama, var meðal þeirra sem gagnrýndu hótanir Trump. Aðrir sögðu hann upprennandi einræðisherra.

„Í Bandaríkjunum hótum við ekki að fangelsa pólitíska andstæðinga. @realDonaldTrump sagðist myndu gera það. Hann er að lofa því að misbeita valdi embættis síns,“ sagði Holder í Twitter-færslu.

Fjöldi repúblikana fordæmdi einnig ummæli forsetaefni flokksins.

„Kandídatar á sigurbraut hóta því ekki að fangelsa andstæðinga sína,“ sagði Ari Fleischer, talsmaður Hvíta hússins í stjórnartíð George W. Bush.

Fyrstu mínútur kappræðanna voru þrungnar spennu og Trump gerði sér lítið fyrir og skaut á stjórnendurna ekki síður en mótherja sinn. Sakaði hann þá um hlutdrægni og sagði „þrjá á móti tveimur“ á milli þess sem hann greip frammí fyrir Clinton.

Clinton stóðst þá freistingu að taka þátt í leðjuslag Trump og reyndi þess í stað að ná til áhorfenda. „Þetta eru ekki venjulegir tímar og þetta eru ekki venjulegar kosningar,“ sagði hún.

Utanríkisráðherranum fyrrverandi tókst einnig að leggja gildrur fyrir andstæðing sinn og fékk Trump m.a. til að viðurkenna að hann hefði ekki greitt tekjuskatt í fjölda ára.

Þá sakaði hún Rússa um að freista þess að leggja lóð sín á vogaskálar Trump með röð tölvuárása, sem varð til þess að Trump hélt því fram, þvert á það sem bandarísk öryggisyfirvöld hafa sagt, að Rússar hefðu ekkert haft með árásirnar að gera.

Lokametrarnir

Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvernig kosningabaráttan þróast næstu daga og vikur en fjöldi þekktra repúblikana dró stuðning sinn við Trump til baka um helgina, eftir að gróf ummæli hans um konur komu upp á yfirborðið.

Trump hefur reitt sig á ókeypis fjölmiðlaumfjöllun og lítið horft til þess að virkja grasrótina, heldur treyst á kosningamaskínu flokksins, sem hriktir í.

Forysta Repúblikanaflokksins er síður en svo ánægð með sýnda afstöðu Trump til kvenna, sem þykir til marks um verulega kvenfyrirlitningu. Þá hefur varaforsetaefni hans, Mike Pence, stigið fram og sagt ummæli viðskiptajöfursins „óverjanleg.“

Pence óskaði Trump hins vegar til hamingju með „sigur“ í kappræðunum í nótt og sagðist stoltur standa við hlið hans.

Sjálfur greip Trump til þess örþrifaráðs skömmu fyrir kappræðurnar að boða til blaðamannafundar með konum sem hafa sakað Bill Clinton um kynferðislega misnotkun, og bauð þeim síðan til að vera viðstaddar kappræðurnar.

Meðal kvennanna voru Paula Jones, sem fór í mál við Clinton vegna kynferðislegrar áreitni þegar hann var ríkisstjóri í Arkansas, og Juanita Broaddrick, sem hefur haldið því fram að Clinton hafi nauðgað sér árið 1978.

Stjórnmálaspekingar segja Trump hins vegar þurfa meira til að ná í skottið á Hillary, sem hefur aukið forskot sitt eftir fyrstu kappræður forsetaefnanna 26. september.

Larry Sabato, framkvæmdastjóri Center for Politics við University of Virginia, sagði á Twitter að Trump hefði gert nóg í nótt til að „stöðva blæðingu“ Repúblikanaflokksins.

Dante Scala, prófessor í stjórnmálafræði við University of New Hampshire, dregur hins vegar í efa að Trump eigi enn möguleika á forsetastólnum.

„Ég sá hann ekki gera nóg í kvöld til að snúa þessu við,“ sagði hann í samtali við AFP. „Fréttir síðustu 48 klukkustunda munu halda áfram að leita á huga kjósenda og ég er ekki viss um að þessar kappræður séu nóg til að breyta stefnu kosningabaráttunnar.“

Að sögn Steven Smith, prófessors í stjórnmálafræði við Washington University, virtist framganga Trump í kappræðunum í nótt benda til þess að hann væri meðvitaður um að standa á erfiðum krossgötum.

„Hann var gamli Donald Trump, hann hljómaði eins og Donald Trump forvalsins í vetur og vor, og ég held að þetta hafi verið viðleitni til að styrkja grunninn; til að fylkja liði, til að stöðva blæðinguna og til að forða framboði hans frá því að hrynja sundur.“

Clinton væri framar í könnunum og hefði líklega ekki gert neitt í kappræðunum til að stofna eigin stöðu í hættu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert