Hælisleitendur í hópslagsmálum

Lögreglumenn að störfum í Danmörku.
Lögreglumenn að störfum í Danmörku. AFP

Í kringum fjörutíu hælisleitendur undir lögaldri tóku þátt í fjöldaslagsmálum við miðstöð hælisleitenda í bænum Tullebølle í Danmörku í gær. Lögreglan segir nákvæm upptök áfloganna óljós.

Starfsmaður við miðstöðina var sleginn með járnstöng í líkamann af 15 ára dreng, en hlaut engin meiðsl af. Drengurinn hefur þó verið kærður fyrir árás gegn opinberum starfsmanni samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Þá slasaðist enginn drengjanna alvarlega, en þátttakendur hafa neitað að segja lögreglu hvers vegna átökin byrjuðu.

Drengir úr sömu miðstöð tóku einnig þátt í slagsmálum þar sem allt að hundrað ungir hælisleitendur komu við sögu, að loknum knattspyrnuleik í júlí.

Mánuði síðar voru fimm unglingsdrengir úr miðstöðinni ákærðir fyrir kynferðisárásir á fjölskylduhátíðinni Langelandsfestival, en Tullebølle er á eyjunni Langeland á milli Fjóns og Sjálands.

Tveir þeirra voru þá ákærðir fyrir að nauðga 16 ára stelpu á hátíðinni.

Danski fréttavefurinn Fyens greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert