Spennan milli ríkjanna komin á „hættulegt stig“

Mikaíl Gorbachev, leiðtogi Sovétríkjanna, og Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, á …
Mikaíl Gorbachev, leiðtogi Sovétríkjanna, og Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, á leiðtogafundinum í Höfða. mbl.is/RAX

Mikaíl Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, varaði í dag við því að spennan milli Rússlands og Bandaríkjanna í kjölfar stríðsins í Sýrlandi væri komin á „hættulegt stig“. 

Samskipti ríkjanna – sem í kjölfar Úkraínudeilunnar höfðu þegar ekki verið stirðari frá því á tímum kalda stríðsins – hafa versnað enn frekar á undanförnu vegna ástandsins í Sýrlandi. Bandaríkjamenn hafa m.a. dregið sig út úr  friðarviðræðum þeirra við Rússa um Sýrlandsstríðið og þá hafa fullyrðingar bandarískra stjórnvalda um að Rússar standi að baki netárásum í Bandaríkjunum ekki bætt samskiptin.

Rússnesk stjórnvöld hafa á sama tíma sagt upp fjölda kjarnorkusamninga, m.a táknrænu samstarfi þjóðanna að draga úr fjölda þeirra vopna sem innihalda plútoníum.

„Ég held að heimurinn sé á hættulegum stað,“ hefur rússneska RIA Novosti fréttastofan eftir Gorbachev.

„Ég get ekki veitt neinar lausnir, en ég verð að segja að þetta verður að hætta. Við þurfum að byrja að tala saman aftur. Að hætta því voru mestu mistökin.“

Gorbachev var síðasti leiðtogi Sovétríkjanna og átti sinn þátt í lokum kalda stríðsins og að draga úr áratuga langri spennu milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna.

„Það er nauðsynlegt að við beinum athyglinni aftur að aðalatriðunum. Þau eru að draga úr kjarnorkuvígbúnaði, baráttan við hryðjuverk og að koma í veg fyrir hamfarir af völdum loftslagsbreytinga,“ sagði hann.

„Í samanburði við þessar áskoranir, þá teljast öll önnur mál vera minniháttar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert