„Tímabært að slíta öll tengsl við Trump“

Afdráttarlaus gagnrýni Trump á Clinton er aðferð sem íhaldsmenn hafa …
Afdráttarlaus gagnrýni Trump á Clinton er aðferð sem íhaldsmenn hafa viljað sjá sinn frambjóðanda beita allt frá því Bill Clinton var forseti. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, þykir hafa staðið sig nægjanlega vel í kappræðum þeirra Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, í gærkvöldi til að halda framboði sínu til streitu. Reuters-fréttastofan segir frammistöðu hans þó gera þeim repúblikönum sem hafa hugleitt að veita Trump ekki stuðning sinn, enn erfiðara um vik.

Hefði frammistaða hans verið verri þá hefði mátt búast við því að verulega fjölgaði í hópi þeirra frammámanna flokksins sem drógu stuðning sinn við Trump til baka nú um helgina, í kjölfar ummæla hans um konur á myndbandsupptöku frá 2005. 150 leiðtog­ar flokks­ins hafa þegar til­kynnt op­in­ber­lega að þeir muni ekki kjósa hann og hefði fjölgað enn frekar í hópinum þá hefði þrýstingur á að Trump hætti við framboð sitt líka aukist verulega.

Standa frammi fyrir kunnuglegum vanda

Það gerðist hins vegar ekki og segir Reuters repúblikana, sem horft hafa á flokk sinn klofna með framboði Trump, nú standa frammi fyrir kunnuglegum vanda: Eiga þeir að yfirgefa forsetaframbjóðanda sem getur valdið flokknum skaða í þingkosningum sem fram fara á sama tíma, eða eiga þeir að halda áfram að styðja hann í þeirri von að hann geti enn farið með sigur af hólmi?  

Trump tók harkalega á Clinton í kappræðunum. Hann hélt áfram að gagnrýna notkun hennar á einkapóstfangi þegar hún var utanríkisráðherra, auk þess að rifja upp áratuga gamlar ásakanir um hjúskaparbrot Clinton-hjónanna.

„Afdráttarlaus gagnrýni hans á Hillary í kvöld (gærkvöldi) er aðferð sem íhaldsmenn hafa viljað sjá sinn frambjóðanda beita allt frá því Bill Clinton var forseti,“ hefur Reuters eftir Craig Robinson, fyrrverandi formanni Repúblikanaflokksins í Iowa. „Grasrót flokksins og spjallstöðvarnar munu dýrka  frammistöðu hans.“

57% þátt­tak­enda í könn­un CNN að loknum kappræðunum sögðu Cl­int­on hafa staðið sig bet­ur en 34% sögðu Trump hafa staði sig betur.

Engar leiðbeiningar frá Landsnefnd repúblikana

Þingmenn Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings eiga að funda í dag um framboð Trumps, að því er Reuters hefur eftir aðstoðarmanni eins þingmannsins. 34 af 40 þeim þingmönnum flokksins sem ekki eru öruggir um þingsæti sitt í kosningunum hafa fordæmt ummæli Trumps á myndbandinu. Einungis þrír þeirra hafa þó gengið svo langt að hvetja Trump til að hætta við framboð sitt.

For­setafram­bjóðand­inn fyrr­ver­andi John McCain og ut­an­rík­is­ráðherr­ann fyrr­ver­andi Condo­leezza Rice eru meðal þeirra sem nú hafa op­in­ber­lega af­neitað Trump og sama hefur Arnold Schw­arzenegger, fyrr­ver­andi rík­is­stjóri Kali­forn­íu, gert.

Landsnefnd Repúblikanaflokksins hefur ekki veitt flokksdeildum neinar leiðbeiningar um hvernig þær eigi að bregðast við spurningum um ummæli Trump á myndbandinu. „Það hefur ekki borist einn tölvupóstur, símtal eða neitt annað sem kalla mætti leiðbeiningar frá Landsnefndinni um það hvernig við höldum áfram,“ hefur Reuters eftir einum embættismanna flokksins sem ekki vildi láta nafns síns.

Óttast að kjósendur flokksins haldi sig heima á kjördag

Birting myndbandsins hefur aukið á þrýsting um að flokkurinn dragi úr fjárstuðningi við framboð Trumps og beini fjármunum sínum þess í stað í að styðja við framboð þeirra þingmanna flokksins sem geta átt á hættu að missa þingsæti sín vegna þess bakslags sem framboð Trump er talið geta valdið.

„Það er löngu orðið tímabært að skera á öll tengsl við Trump og beina kröftunum þess í stað að því að vernda meirihluta repúblikana á þingi og framboðslista. Nú strax,“ sagði John Weaver, sem hefur langa reynslu af kosningastarfi flokksins.

Ráðamenn flokksins hafa einnig áhyggjur af því að óvinsældir Trump leiði til þess að kjósendur flokksins sleppi því að mæta á kjörstað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert