Morð-trúðarnir komnir til Bretlands

Morð-trúðaæðið hefur náð til Bretlands og lögregla óttast að atvikum …
Morð-trúðaæðið hefur náð til Bretlands og lögregla óttast að atvikum muni fjölga er nær dregur hrekkjavöku. AFP

Morð-trúðaæðið hefur náð ströndum Bretlands og óttast lögregla að tilfellum muni fjölga í aðdraganda hrekkjavöku. „Raunverulegir“ trúðar hafa séð sig tilneydd til að tjá sig um málið og segja of langt gengið.

Breskum lögregluyfirvöldum hafa borist þó nokkrar tilkynningar um tilvik þar sem hrekkjalómar hafa klætt sig upp og málað eins og ógnvekjandi trúðar, og skotið fólki skelk í bringu. Í einhverjum tilvikum voru viðkomandi með hníf.

Fyrirbærið hófst í Bandaríkjunum og eru tilvikin orðin svo mörg að nærtækast er að tala um æði. Breskum trúðum hugnast ekki að uppátækið festi rætur í Bretlandi.

„Brandarinn hefur verið tekinn of langt,“ segir trúðurinn Andy, sem hefur verið virkur sl. 10 ár.

Málið var til umræðu á trúðasamkomu í Barcelona í síðustu viku, þar sem m.a. var rætt um aðgerðir til að berjast gegn þessari ógn við ímynd trúða.

„Almenningur er nógu upplýstur til að gera greinarmun á fávita í búning og einhverjum sem þú myndir bjóða inn á heimili þitt vegna barnaafmælis,“ segir Andy, sem heitir fullu nafni Andrew Davis.

„Trúðslæti mín koma frá hjartanu, viljanum til að gleðja fólk og fá það til að brosa. Ekki hræða það.“

Lögregluyfirvöld í Lundúnum segjast hafa nokkur „morð-trúða“-mál til rannsóknar. Þrjú þeirra eru rannsökuð sem refsibrot. Lögreglustjórinn Julian Bennett segir andfélagslega hegðun af því tagi sem þarna um ræðir, hræða fólk og láta því líða illa.

Hann segist eiga von á því að atvikum muni fjölga er nær dregur hrekkjavöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert