Trump saug 93 sinnum upp í nefið

Trump og Hillary Clinton takast í hendur fyrir kappræðurnar.
Trump og Hillary Clinton takast í hendur fyrir kappræðurnar. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, saug 93 sinnum upp í nefið í kappræðunum sem fóru fram aðfaranótt mánudags. Þetta kemur fram í umfjöllun vefsíðunnar The Wrap.

„Við töldum 93 skipti sem Donald Trump saug upp í nefið. Það er um eitt skipti á mínútu, þar sem kappræðurnar stóðu yfir í aðeins lengri tíma en þær 90 mínútur sem áætlaðar voru,“ segir á vefsíðunni.

Þar kemur einnig fram að frambjóðandinn hafi sogið mun sjaldnar upp í nefið í síðasta þriðjungi kappræðanna.

Forbes.com hefur einnig skrifað um málið. 

Í mótsögn við sjálfan sig

Eftir fyrri kappræður Trump og Hillary Clinton greindi AFP-fréttastofan frá því að fólk á samfélagsmiðlum hefði verið upptekið af því hversu oft hann saug í nefið. Sumir sögðu að Trump hefði verið í mótsögn við sjálfan sig með þessu því sjálfur hefur hann gagnrýnt Clinton vegna heilsufars hennar.

Í viðtali við Fox and Friends eftir fyrri kappræðurnar sagðist Trump ekki vera með kvef eða ofnæmi. „Ég var ekki að sjúga upp í nefið,“ sagði hann og talaði um að hljóðneminn hefði verið gallaður.

Notar Trump kókaín?

Grínistinn Stephen Colbert sagði að Trump hefði „hljómað eins og hann væri að berjast við „kvef með kókaíni.“

Howard Dean, sem var frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum árið 2004, skrifaði einnig um málið á Twitter: „Tók eftir því að Trump var að sjúga ótt og títt upp í nefið. Kókaínnotandi?"

Hann baðst síðar afsökunar á ummælum sínum og kvaðst ekki hafa neinar sannanir sem styðja við bakið á þeim. 

Núna hefur leikkonan Carrie Fischer, sem lék Leu prinsessu í Star Wars og er lítill aðdáandi Trump, bæst í hóp þeirra sem velta því fyrir sér hvort hann noti kókaín.

Í svari við spurningu á Twitter um það hvort það beri vott um kókaínneyslu hversu oft Trump sýgur upp í nefið, skrifaði hún: „Ég er sérfræðingur. Það er engin spurning“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert