Sumar voru berar að ofan, aðrar naktar

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump lagði það í vana sinn að rölta inn í búningsklefa þegar fegurðarsamkeppnir voru í gangi, samkvæmt því sem fyrrverandi fyrirsæta heldur fram. Keppendur, margir þeirra á táningsaldri, voru naktir eða fáklæddir.

„Fyrstu kynni okkar af honum var þegar við vorum hálfnaktar að klæða okkur í sundfötin,“ sagði Tasha Dixon en hún var 18 ára þegar hún var á meðal keppenda í Ungfrú Bandaríkjunum.

„Hann rölti bara inn. Það var enginn tími til að klæða sig í slopp eða eitthvað annað. Sumar stelpurnar voru berar að ofan, aðrar naktar,“ bætti Dixon við.

Hún sagði ennfremur að fólk sem vann fyrir Trump hefði þrýst á stúlkurnar til að „smjaðra fyrir honum, labba upp að honum, tala við hann og fá athygli hans“ á meðan þær voru fáklæddar. Dixon þótti aðstæðurnar óþægilegar og vandræðalegar.

„Ég man eftir því að hafa reynt að klæða mig í snatri vegna þess að einhver maður var kominn inn,“ sagði annar keppandi, Mariah Billado.

Fleiri stúlkur vildu ekki tjá koma fram undir nafni en sögðu framkomu Trumps hafa verið „ógeðslega.“

Trump sagði í viðtali frá árinu 2005 að hann mætti fara baksviðs vegna þess að hann væri eigandi fegurðarsamkeppninnar og gæti því gert það sem hann vildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert