Vilja svipta Barroso eftirlaununum

José Manuel Barroso, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
José Manuel Barroso, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur neitað að taka við undirskriftasöfnun sem starfsmenn hennar stóðu fyrir þar sem farið er fram á að komið yrði í veg fyrir að háttsettir embættismenn héldu til starfa hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum eftir að þeir létu af embætti hjá sambandinu. Safnað hafði verið 152 þúsund undirskriftum.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að undirskriftasöfnunin hafi verið sett af stað í kjölfar frétta af því að José Manuel Barroso, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar, hefði hafið störf fyrir bandaríska fjárfestingabankann Goldman Sachs. Öryggisverðir komu í veg fyrir að aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar gætu komið í höfuðstöðvum framkvæmdastjórnarinnar í gær til þess að afhenda undirskriftirnar.

Fulltrúar samtakanna Alter-EU, sem berjast fyrir gagnsæi, urðu fyrir því sama þegar þeir ætluðu að afhenda 63 þúsund undirskriftir um sama mál skömmu síðar. Kallað var eftir því í báðum undirskriftasöfnunum að gripið yrði til aðgerða vegna vistaskipta Barroso. Þar með talið að Barroso verði sviptur eftirlaunum sínum vegna starfa fyrir Evrópusambandið og að skýrari reglur verði settar um hvað fyrrverandi fulltrúar í framkvæmdastjórninni geti gert að starfi loknu. Samkvæmt núverandi reglum geta embættismenn sambandsins tekið að sér hvaða starf sem er 18 mánuðum eftir að þeir láta af embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert