Finnar fá fjallið ekki gefins

Fjallstindar. Mynd úr ljósmyndasafni mbl.is.
Fjallstindar. Mynd úr ljósmyndasafni mbl.is. mbl.is/RAX

Norska ríkisstjórnin hefur að undanförnu staðið af sér þrýsting frá almenningi um færa Finnlandi að gjöf fjallstind, í tilefni af hundrað ára sjálfstæðisafmæli nágrannalandsins.

Hópur Norðmanna hafði varpað fram þeirri hugmynd að gefa Finnlandi hinn 1.361 metra háa tind fjallsins Halti, sem liggur á mærum landanna tveggja. Gjöfin hefði það í för með sér að tindurinn yrði sá hæsti í Finnlandi. 

Undirskriftasöfnun á Facebook þessa efnis hefur þegar skilað rúmlega 17 þúsund undirskriftum.

Frétt mbl.is: Vilja gefa Finnum fjallið

Landamæri Finnlands ná langa vegu upp að tindinum, eða upp í 1.324 metra hæð, eða þar sem nú er hæsti punktur Finnlands. 

Skýrt merki um náin tengsl landanna

En nú er ljóst að lagaleg hindrun er í vegi gjörningsins.

„Þessi frumlega hugmynd hefur fengið mjög góðar viðtökur frá almenningi,“ segir forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, í bréfi til bæjarstjórans í Kafjord, sem einna mest hafði talað fyrir gjöfinni.

„Ég sé þetta sem skýrt merki um náin tengsl Noregs og Finnlands,“ sagði Solberg. Bætti hún þó við að gjöfin hefði i för með sér flókin lagaleg vandamál, og í raun óyfirstíganleg.

Gjörningurinn myndi nefnilega brjóta gegn fyrstu grein norsku stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að norska konungdæmi sé „óskiptanlegt og óafsalanlegt“.

Við munum finna aðra verðuga gjöf til að fagna hundrað ára afmæli Finnlands,“ sagði Solberg að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert